Vegna samkomutakmarkana er aðventunni fagnað með breyttu sniði í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrstu helgi í aðventu, helgina 26.-28. nóvember. Ekki verður formleg dagskrá við tendrun jólatrés á Kirkjutorgi í ár líkt og hefð er fyrir. Við breytum því til og bjóðum upp á jólasveinalest og hreyfi-jólabingó líkt og í fyrra.
Nemendur Árskóla munu tendra ljós á jólatrénu á Kirkjutorgi samhliða hinni árlegu friðargöngu skólans. Nemendur Varmahlíðarskóla munu tendra ljósin á jólatrénu við Varmahlíðarskóla, en hefð er fyrir því að nemendur 4. bekkjar skólans sæki jólatré í Reykjarhólsskóg. Nemendur við Grunnskólann austan Vatna munu tendra ljós á jólatrjánum við sína skóla á Hofsósi og á Hólum, en hefur hefð skapast fyrir því á Hólum að nemendur sækja tré í Hólaskóg.
Jólabingó alla helgina
Sveitarfélagið hvetur til samveru fjölskyldunnar um helgina og stendur fyrir hreyfi-jólabingói þar sem fjölskyldur eru hvattar til þess að fara saman í göngutúr og reyna að fá bingó. Um er að ræða ratleik þar sem mynd er tekin úr göngutúrnum á ýmsum stöðum samkvæmt leiðbeiningum á bingó spjaldi. Þegar búið er að ná öllu spjaldinu eru myndirnar sendar inn. Leikurinn verður í gangi alla helgina. Hægt er að taka þátt alls staðar í Skagafirði, en fjögur mismunandi bingóspjöld verða í boði, fyrir Hofsós, Sauðárkrók, Varmahlíð og dreifbýli Skagafjarðar.
Sjá nánar: HÉR
Mynd/Skagafjörður.is