Félag eldri borgara á Siglufirði hefur frá árinu 2016 leitast eftir lóð undir púttvöll og segja að það ferli hafi verið langt og strangt.

Nú hyllir undir að hægt verði að fara að hefjast handa, því á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar þann 3. okt. voru lögð fram drög að staðsetningu púttvallarins við Hvanneyrarbraut og felur nefndin tæknideild að grenndarkynna tillöguna.

Ánægja ríkir meðal eldri borgara með að málið sé komið á skrið,  félaginu var úthlutað árið 2017 2.340.000 úr Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar til gerðar vallarins og gildir sú styrkveiting til júlí 2019.

Sjá frétt: Úthlutað úr samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar

Formaður eldri borgara Ingvar Á Guðmundsson telur að púttvöllurinn verði hverfinu til sóma og að skemmtilegt mannlíf skapist þar í kring. Hann sagði jafnframt að ekkert ónæði fylgdi þessari íþrótt og ósk félagsmanna væri að geta jafnvel leiðbeint börnum að komast af stað í þessari íþrótt. Þau verði þar þó ekki án eftirlits og að allur búnaður verði í umsjá félags eldri borgara.

Fyrirhuguð staðsetning púttvallarins við Hvanneyrabraut.

 

Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir