Góðar rútínur, réttur matur og jafnvægi milli hreyfingar og hvíldar gefur gleðilega hátíð, líka fyrir gæludýrið þitt.

Jólahátíðin er tími gleði og samveru, en fyrir gæludýrin okkar getur þessi tími oft verið áskorun. Hefbundið lífsmunstur breytist oft mikið, það er meira um heimsóknir og mikið breytt matarræði fyrir ferfætlingana okkar getur skapað þeim meiri vandamál en gleði. Hundar eru t.d. einstök vanadýr og miklar breytingar geta valdið streitu. Það er mikilvægt um hátíðarnar að tryggja áfram hefðbundna hreyfingu og nauðsynlega hvíld. Kannski er betra fyrir hundinn að hvílast stundum frekar en að vera með í öllum jólaboðunum?

Hættur fyrir ferfætlinga og fiðraða heimilismeðlimi geta líka leynst víða, t.d. jólaseríur, skreytingar með kertum og blómum, jólamatur og sælgæti. Þó að við sjáum ekki að pakki sem liggur fallega skreyttur undir jólatrénu innihaldi konfekt, þá er nokkuð víst að hundur heimilisins viti nákvæmlega hvað er að finna í pakkanum og taki sér það bessaleyfi að opna þegar enginn sér. Rafhlöður og seglar td í pappaboxalokum eru mikið í umferð á jólum og getur verið einstaklega hættulegt ef slíkt er gleypt.

Gott er að undirbúa hátíðarnar með því að vista í símann símanúmer vakthafandi dýralæknis á þínu svæði. Hafa samband við dýralækni á bakvakt

Eftirfarandi hlutir geta reynst gæludýrum varasamir:

Gæludýr geta veikst af hefðbundnum jólamat

Oft langar mann að gefa t.d. hundinum eitthvað sérstaklega gott um jólin, enda erum við heldur betur að gera vel við okkur í mat. Hversu erfitt er líka að standast biðjandi augu loðboltans við jólaborðið? Margir hundar eru mjög viðkvæmir fyrir miklum breytingum í matarræði. En ef þú vilt gefa hundinum eitthvað auka gott, forðastu þá að gefa saltan, feitan eða mjög kryddaðan mat. Það endar oftar en ekki með niðurgangi og/eða uppköstum og í versta falli gæti dýrið endað hjá dýralækninum, sem er örugglega ekki staðurinn sem fólk langar að eyða hátíðunum á.

Annar varasamur matur

Matur sem er varasamur fyrir gæludýrin er oft óvanalega aðgengilegur á jólum. Súkkulaðimolar og súkkulaðirúsínur Súkkulaði, laukur, rúsínur, avokado og vínber eru matvæli sem geta verið hættuleg dýrunum þínum. Skörp bein, svo sem fuglabein eða lambabein, geta stungist í gegnum meltingarveginn og önnur bein geta valdið stíflu. Sjá nánar um varasaman mat fyrir gæludýr

Jólatré

Flest tré eru ekki mjög eitruð en geta samt valdið niðurgangi og uppköstum ef þau eru étin. Nálarnar sjálfar geta líka valdið ertingu, stungist í slímhúð og jafnvel í þófa. Köttum finnst oft gaman að fara á jólaskrautsveiðar og geta lent í því að velta trjánum ef þau eru ekki vel skorðuð. Ekki er heldur víst að glerkúlur lifi slíkt fall af og glerbrot geta valdið skaða.

Rafhlöður

Aldrei er jafn mikið af rafhlöðum í umferð eins og á jólunum í alls konar dóti. Rafhlöður eru gæludýrum mjög hættulegar ef þær eru gleyptar. Rafhlöður geta fljótt valdið vefjadauða vegna sýru sem getur lekið út eða rafspennu í vef og mögulega þungmálmaeitrun. Sérstaklega eru flögurafhlöður mjög skaðlegar þar sem þær geta valdið vefjaskaða svo fljótt sem 15-30 mínútum eftir inntöku. Ef þig grunar að gæludýrið þitt hafi gleypt rafhlöðu, hafðu umsvifalaust samband við vakthafandi dýralækni. Ef dýr gleypir rafhlöður er um að ræða neyðartilfelli sem þarf að bregðast við strax og ekki skal bíða til næsta dags.

Seglar

Sérstaklega þarf maður að huga að því á jólum að algengt er að nota segla á alls kyns kössum til að halda lokinu aftur. Seglarnir geta verið mjög öflugir miðað við stærð. Ef hundur t.d. nagar slíkan pappakassa þá getur hann gleypt báða seglana með pappanum um leið. Ef slíkt gerist og seglarnir festast saman í gegnum þarma getur lífshættulegt ástand skapast. Hafið strax samband við dýralækni ef grunur er um að gæludýr hafi gleypt segla. Um er að ræða neyðartilfelli sem þarf að bregðast við strax og ekki skal bíða til næsta dags.

Skreytingar

Bæði hundar og kettir geta tekið upp á því að éta gjafabönd og bandskreytingar. Ef böndin festast á leið sinni í gegnum meltinguna geta þau skapað mikla hættu fyrir dýrið. Stundum festist hluti af spottanum utan um tungu þó hluti af honum gangi niður. Ef spotti er kominn í maga eða þarm og gengur svo aftur úr dýri eða upp úr því er mjög mikilvægt að toga alls ekki í spottann þar sem það getur skorið þarmana eða vélindað eins og hnífur. Leitið strax til dýralæknis.

Blóma- og kertaskreytingar geta verið varasamar. Gæludýr vara sig oft ekki á kertaljósum og eiga það til að brenna sig og kveikja í feldinum ef þau fara of nálægt. Ófáir kettir hafa kveikt í veiðihárunum í þeirri tilraun að þefa af kertunum. Reynið að setja logandi ljós þar sem dýrið kemst ekki að því. Ef dýr fá heitt kertavax framan í sig getur þurft að skoða hvort það hafi brennt eða skaðað hornhimnu augnanna. Athugið að ef dýrið pýrir augu getur það verið einkenni um skaða. Jólastjörnur, mistilteinn og önnur jólablóm eru vægt eitruð ef þau eru étin og geta valdið slefi, uppköstum, niðurgangi.

Bæði hundar og kettir geta tekið upp á því að bíta í jólaseríur og geta þá fengið óþægilegt rafstuð.

Mynd/pixabay