Kaffi- og valhnetukaka

  • 50 g valhnetur
  • 225 g sykur
  • 225 g mjúkt smjör
  • 200 g hveiti
  • 4 tsk instant espresso duft (eða 2 tsk Nescafé leyst upp í 1 msk af sjóðandi vatni)
  • 2 ½ tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • 4 stór egg
  • 1 – 2 msk mjólk

Glassúr

  • 350 g flórsykur
  • 175 g mjúkt smjör
  • 2 ½ tsk instant espresso duft (leyst upp í 1 msk af sjóðandi vatni)
  • um 10 valhnetur til skrauts

Hitið ofninn í 180°. Klæðið botninn á tveimur 20 cm kökuformum með smjörpappír og smyrjið hliðarnar. Setjið valhnetur og sykur í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til hneturnar og sykurinn eru orðin að fíngerðum hnetusykri. Bætið smjöri, hveiti, espresso dufti, lyftidufti, matarsóda og eggjum í matvinnsluvélina og vinnið saman í slétt deig. Látið að lokum mjólk renna niður troðarann á meðan matvinnsluvélin gengur.  Skiptið deiginu í formin og bakið í 25 mínútur. Látið kökubotnana kólna alveg áður en glassúrinn er settur á.

Glassúr: Setjið flórsykur í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til flórsykurinn er kekkjalaus. Bætið smjöri saman við og látið vélina ganga þar til flórsykurinn og smjörið er orðið að mjúku kremi. Leysið kaffiduftið upp í sjóðandi vatni og bætið því í matvinnsluvélina. Látið vélina vinna kaffið snöggt saman við kremið.

Setjið annan kökubotninn á hvolf á kökudisk (þannig að sú hlið sem snéri niður í kökuforminu snúi upp). Breiðið helmingnum af glassúrnum yfir og leggið síðan seinni botninn ofan á þannig að slétta hliðin á honum (sú sem snéri niður í kökuforminu) leggist yfir kremið (s.s. sléttu hliðarnar mætast í miðjunni). Breiðið restina af kreminu yfir.  

Skreytið kökuna með valhnetum.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit