Svör hafa verið að berast umsækjendum vegna menningarstyrkja Fjallabyggðar fyrir árið 2019. Formleg athöfn um úthlutun styrkja verður haldin í Tjarnarborg þann 24. janúar samhliða útnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar.

Sitt sýnist hverjum um styrkveitingar og mikilvægi menningar. Eftirfarandi facebook færsla frá Ljóðasetri Íslands birtist fyrr í dag og má lesa hér að neðan. Einnig má geta þess að eigandi Ljóðasetursins, Þórarinn Hannesson sótti um 2.000.000 kr. til að endurvekja Síldarævintýrið í breyttri mynd og er með hóp af fólki á bakvið sig til að rífa upp þennan menningaratburð sem mikil eftirsjá er af. Því var einnig hafnað.

 

Ljóðasetur Íslands

 

Kaldar kveðjur frá Fjallabyggð

” Rekstrarstyrkur til Ljóðaseturs Íslands skorinn niður um nær 60%.

Loks þegar setrið er að komast á beinu brautina, forstöðumaður hættur að greiða með rekstrinum og hyllir undir að hægt sé að sinna viðhaldi húsnæðis af einhverju viti og bæta í starfsemina ákveður stjórn sveitarfélagsins að skera niður styrk til reksturs setursins. Styrkurinn hefur verið 350.000 kr. á ári síðustu tvö ár og hækkað úr 200.000 kr. á nokkrum árum. Styrkurinn í ár verður 150.000 kr.

Á þeim rúmlega sjö árum sem setrið hefur verið starfrækt hafa um 9.000 gestir komið þar inn, haldnir hafa verið um 220 viðburðir á setrinu, 55 sinnum hafa gestaskáld lesið þar úr verkum sínum og aðrir listamenn komið fram um 60 sinnum.

Þetta er náttúrulega hvorki mikið né merkilegt enda tala gestir gjarnan um hversu lítið og ómerkilegt þetta starf er sem þarna fer fram, svona setur séu nú hvort sem er í hverju krummaskuði og þeir dauðsjái eftir að hafa komið þarna inn fyrir dyr.

Það tilkynnist hér með að húseignin Túngata 5 á Siglufirði er til sölu og væri gott að hún seldist sem fyrst.

P.s. Þeir bæjarbúar sem eiga eftir að sjá hörmungina er bent á að opið verður um helgina og þeir mega gjarnan líta í heimsókn”.