Varðliðar umhverfisins, verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10 bekk er nú hafin í 14. sinn. Samkeppninni er ætlað að hvetja börn og unglinga til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn þeirra á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Skilafrestur verkefna er 26. mars 2021.
Þar sem keppnin féll niður í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins verður að þessu sinni tekið á móti verkefnum sem unnin voru skólaárin 2019-2020 og 2020-2021.
Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ljósmyndir, kannanir, samvinnuverkefni, ritgerðir, textílverkefni, ljóð, veggspjöld, bæklingar, vefverkefni, leikrit, myndbönd og hljóðverk og svo mætti lengi telja. Hægt er að setja þau fram á hvaða formi sem er – hér er um að gera að virkja sköpunargleðina. Lögð er áhersla á að frumkvæði nemenda sé sýnilegt bæði við undirbúning og úrvinnslu verkefnanna og mikilvægt er að gögn séu unnin af nemendum sjálfum.
Verkefnin geta tekið fyrir umhverfismál í víðum skilningi og er áhersla á að þau hafi góða tengingu við nám nemenda og þverfaglegt skólastarf. Þá styrkir það verkefnin ef þau leitast við að hafa jákvæð áhrif á hegðun fólks og viðhorf samfélagsins til umhverfisins, hvort heldur er innan skólans eða utan. Þá eru skólar hvattir til að tengja verkefnin við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með einhverjum hætti.
Að keppninni standa umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms. Sem fyrr segir er skilafrestur verkefna til 26. mars 2021 og skal senda þau á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins”.
Þriggja manna valnefnd skipuð fulltrúum þeirra sem standa að keppninni velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Veitt verður viðurkenningarskjal fyrir öll innsend verkefni og umhverfis- og auðlindaráðherra útnefnir Varðliða umhverfisins á hátíðarathöfn sem haldin er í tengslum við Dag umhverfisins.
Frekari upplýsingar veitir Anna Sigríður Einarsdóttir.
Nánar um Varðliða umhverfisins