Kiwanisklúbburinn Skjöldur í Fjallabyggð ákvað um daginn að styrkja nokkur íþróttafélög um kr. 100.000 hvert og fer hann í barnastarf, en heimsmarkmið Kiwanishreyfingarinnar er „Börnin fyrst og fremst“. Styrkirnir voru afhentir við athöfn í Kiwanishúsinu á Siglufirði 12. mars.

Félögin sem fengu styrki núna voru Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og við styrknum tók Dagný Finnsdóttir, Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg, fulltrú þess var Hjalti Gunnarsson, Tennis- og badmintonfélagi Siglufjarðar, fulltrúi þess var Óskar Þórðarson og Skíðafélag Ólafsfjarðar þar sem Kristján Hauksson veitti styrknum viðtöku. Á myndinni með þeim eru Guðmundur Skarphéðinsson kjörforseti, Ólafur Baldursson forseti Skjaldar og Konráð Karl Baldvinsson féhirðir.

Forseti Skjaldar flutti smá tölu við þetta tækifæri og fer hún hér á eftir:

„Hvað er Kiwanis?

Kiwanis eru alþjóðleg samtök þar sem hundruð þúsunda manna vinna saman.

Meginmarkmið Kiwanis International er að bæta líf barna í heiminum. Það er gert með fjölbreyttum verkefnum innan hreyfingarinnar:

Við vinnum forvarnarverkefni, vekjum athygli og komum af stað umræðu sem skilar árangri.

Við öflum fjár

Eitt af því sem aldrei fæst nóg af eru peningar. Við öflum fjár til góðra verkefna og komum þeim í réttar hendur.

Við gefum tíma okkar

Félagar í Kiwanis búa saman yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu. Þessari reynslu komum við áfram með kennslu og þjálfun.

Við búum til tækifæri

Við hjálpum börnum og ungu fólki að ná lengra með kennslu, þjálfun og opnum þannig fyrir ný tækifæri.“

Mynd/Albert Gunnlaugsson
Heimild/Frétta- og fræðslusíða UÍF