- 3 kjúklingabringur (ca 600 g)
- ólívuolía
- 1 laukur, hakkaður
- 4 hvítlauksrif
- 150 g sveppir, sneiddir
- 150 g spínat
- 200 g parmesan (1 pakkning), skorinn með ostaskera eða kartöfluflysjara í þunnar sneiðar
- 160 g rifinn mozzarellaostur (1 poki)
- 400 g pastasósa eða góð tómatsósa
- lasagnaplötur
Setjið kjúklingabringurnar í pott með vatni og sjóðið þar til þær eru soðnar í gegn (um 10-15 mínútur). Takið kjúklinginn úr pottinum og sneiðið hann niður í þunna bita.
Hitið ólívuolíu á pönnu við miðlungshita. Setjið hakkaðan lauk á pönnuna og steikið við miðlungshita þar til hann er mjúkur, um 5-6 mínútur. Bætið sneiddum sveppum á pönnuna og steikið í aðrar 3-4 mínútur. Bætið pressuðum hvítlauksrifum og spínati á pönnuna og steikið þar til spínatið er orðið mjúkt. Bætið sneiddum kjúklingabringum á pönnuna og takið hana af hitanum. Hrærið um 50 g af parmesan og 50 g af mozzarella saman við.
Smyrjið eldfast mót og leggið eitt lag af lasagnaplötum í botninn, síðan eitt lag af kjúklingablöndunni, pasta/tómatsósunni og af báðum ostunum. Endurtakið eins oft og hráefnið leyfir (ég náði 4 lögum). Endið á ostinum.
Bakið við 175° í 35 mínútur. Látið standa í nokkrar mínútur og berið síðan fram með góðu salati og jafnvel hvítlauksbrauði.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit