Kjúklingur í panang karrý

Panangkarrýmauk

  • 3 msk rautt karrýmauk
  • 1 msk hnetusmjör (creamy)
  • 1/2 tsk kórianderkrydd
  • 1/4 tsk cumin

Rétturinn

  • 1 msk kókosolía
  • 1 skarlottulaukur
  • 1 msk rifið engifer
  • 1 dós kókosmjólk
  • 300-400 g kjúklingalundir eða -bringur, skornar í þunnar sneiðar
  • 1,5 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 tsk fiskisósa
  • 1 msk sykur
  • 10 dl blandað grænmeti (t.d. brokkólí, gulrætur, paprika, kartöflur, sveppir, sætar kartöflur…)
  • 170 g hrísgrjónanúðlur, eldaðar eftir leiðbeiningum á pakkningu
  • ferskt kóriander og lime skorið í báta til að bera fram með réttinum

Setjið öll hráefnin fyrir panangkarrýmaukið í skál og hrærið saman. Leggið til hliðar.

Skerið grænmetið niður og steikið í smá ólívuolíu á pönnu við miðlungsháan hita þar til grænmetið er komið með fallegan lit (3-5 mínútur). Leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu, bætið skarlottulauknum á pönnuna og mýkið í 3-4 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Bætið engifer á pönnuna og steikið í hálfa mínútu áður en 1/4 af kókosmjólkinni er bætt á pönnuna ásamt karrýmaukinu. Steikið saman í 1 mínútu. Bætið kjúklingi á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því sem eftir var af kókosmjólkinni ásamt vatninu, kjúklingateningnum, fiskisósunni og sykrinum á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita í 5-10 mínútur. Bætið grænmetinu saman við.

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Berið réttinn fram með núðlum, fersku kóriander og lime sem hefur verið skorið í báta.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit