Kona á níræðisaldri á Siglufirði þurfti nýlega að fara með sjúkrabíl í útibú Arion banka til að endurnýja rafræn skilríki. Konan, Mary Walderhaug , hefur dvalið á sjúkrahúsinu á Siglufirði í um tvö ár og þurfti á skilríkjunum að halda vegna bílaviðskipta.

Mary Walderhaug sem fædd er árið 1936 átti lengi vel heima í Reykjavík en síðar í Ólafsfirði. Á ættir að rekja í Fljótin.

RÚV greindi frá því að sonur hennar, Sölvi Lárusson, segir þau hafa reynt allar mögulegar leiðir áður en til þessa kom, meðal annars að endurnýja skilríkin í gegnum Auðkennisappið og að fá aðstoð frá bönkum, símafyrirtækjum og sýslumanni. Tilraunir með appið báru ekki árangur þar sem móðir hans hafði tekið útlitsbreytingum frá því mynd í vegabréfi hennar var tekin, og að lokum var aðgangurinn læstur tímabundið.

Að lokum var gripið til þess ráðs að flytja Mary í sjúkrabíl með súrefni til bankans, þar sem skilríkin voru endurnýjuð. Sölvi segir tilganginn með því að vekja athygli á því hversu erfitt geti verið fyrir aldraða og sjúka að sækja sér slíka þjónustu, og hvetur Auðkenni til að endurskoða verklag sitt.

Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir að fyrirtækið starfi samkvæmt lögum og reglum og að óheimilt sé að afhenda öðrum en skilríkjahafa sjálfum rafræn skilríki. Hann bendir á að endurnýjun í gegnum Auðkennisappið sé liður í að bæta þjónustu, og að unnið sé að því að gera endurnýjun með nafnskírteini mögulega.

„Við reynum að koma til móts við sem flesta, en það eru strangar reglur í þessum ferlum,“ segir Haraldur. „Þegar það gengur ekki, eins og í þessu tilviki, þurfa þjónustuaðilar einfaldlega að finna aðrar leiðir til að veita fólki þjónustu – rafræn skilríki ættu ekki alltaf að vera skilyrði.“