Degi fyrir kjördag er loksins farið að lifna aðeins yfir kosningabaráttunni hér í Fjallabyggð. Mikið er ég feginn að horfa á þetta frá hliðarlínunni þetta skiptið. Þetta hefur verið flöt og málefnaleg kosningabarátta á yfirborðinu hjá flestum en eins og oft áður eru einstaka menn sem missa sig í árásum á einstaklinga, bera út hræðsluáróður og óbeinar hótanir í allar áttir.

Ég ber virðingu fyrir þeim sem vilja taka slaginn og fara í bæjarmálapólitíkina. Það er ekki sjálfgefið að fá gott fólk sem er tilbúið að vinna fyrir samfélagið og þetta er hörkuvinna, ég þekki það af eigin raun hvað þetta getur verið slítandi og erfitt. Þetta er engan veginn “bara einn fundur í mánuði” eins og maður hefur heyrt sagt, þú ert alltaf með hugann við þetta, allan sólarhringinn alla daga ársins.

Ég man ennþá eftir tilfinningunni að vakna daginn eftir kjördag árið 2010 og komast endanlega að því að það eru ekki endilega þeir sem sitja á framboðslistum sem ráða förinni. Það var mjög þrúgandi að komast að því að bakvið tjöldin var búið að ganga frá nánast öllu fyrirfram og þeir sem voru á listunum áttu bara að fylgja með og framkvæma vilja einhverra áhrifamanna úti í bæ. Það fór samt svo á endanum að dæmið gekk ekki upp og það var myndaður meirihluti sem átti aldrei að fá að lifa, það vissi ég frá upphafi og svo var bara beðið eftir sprengjunni sem kom fyrir rest en aftur fór það öðruvísi en ætlað var og meirihlutinn stækkaði fyrir vikið og varð sterkari að mörgu leyti. Þetta var gríðarlega erfitt kjörtímabil sem ég sat í bæjarstjórn og mikið sem gekk á en ég er fyrir vikið reynslunni ríkari.

Mig langaði bara að varpa þessu út í kosmósinn til umhugsunar fyrir þá sem eru að fara að kjósa á morgun, það er margt sem leynist undir yfirborðinu í pólitíkinni þó það sé mis vel falið og öllum sem vilja sjá ætti að vera ljóst. Það er auðvelt að snúa sannleikanum á hvolf og sá fræjum tortryggni.

Gleðilegan kjördag á morgun, ég er búinn að fara á kjörstað og hvet alla til að nýta sér kosningaréttinn.

Grein og mynd: Ingvar Erlingsson