Á turni Siglufjarðarkirkju er klukka, eins og kunnugir vita. Þessi klukka hefur síðastliðin ár gengið nokkuð rétt – oftast – en svo bar til í gær að hún stoppaði kl. nákvæmlega 9:00. Hún var eitthvað svo falleg svona akkúrat 9:00 að það var með hálfgerðum trega að ég fór upp í turninn undir kvöld, til að laga hana. Ég hef haft það hlutverk s.l. 10 ár eða svo að sjá um að klukkan sé í lagi og gangi rétt. Í fyrstu virtist það nánast ógerlegt, þangað til ég ákvað að smíða rafeindabúnað, hugbúnað og smá vélbúnað til að hjálpa þessari gömlu og flottu klukku að vera rétt. Ég tók nokkrar myndir í viðgerðartúrnum sem ég set hér til gamans.

 

Klukkuverkið er u.þ.b. hálf mannhæð að stærð og er í hitastýrðum klefa uppi í turninum.

 

Rafeindabúnaður sem ég bætti við til að fylgjast með hvernig klukkan gengur.

 

Meiri rafeindabúnaður til að senda boð upp í klukkuspilið efst í turninum.

 

Til hægri er Linux tölva sem sér um að fylgjast með tímanum og stýra því þegar þarf að herða eða hægja á klukkuverkinu til að haldast rétt.

 

Þessi rafeindabúnaður er uppi hjá klukkuspilinu og stýrir raf-seglum sem slá í klukkurnar eftir því sem við á.

 

Klukkuspilið samanstendur af 5 klukkum, hver með sinn tón. Þær slá á heila tímanum frá kl 07 til 22 og rétt fyrir kl 18 spila þær lagstúf eftir Sr. Bjarna Þorsteinsson.

 

Þetta eru svo stóru klukkurnar sem hringt er til messu.

 

Séð úr kirkjuturninum yfir torgið á Siglufirði.

 

Bjarnatorgið framan við kirkjuna – séð ofan úr turninum.

 

Klukkan, orðin rétt aftur.

 

Myndir og texti: Gunnar Smári Helgason