Í ár hefur Slagarasveitin unnið að upptöku nýs efnis sem líta mun dagsins ljós á næstu vikum og mánuðum.

Fyrsta lagið sem sveitin sendir frá sér að þessu sinni er Koss Bylgju sem á eftir að heyrast hátt og skýrt á ljósvakaöldum FM Trölla.

Lagið er vel yfirbyggt klassískt rokklag með vaxandi þunga sem hæfir textanum vel.

Textinn gæti verið minni úr íslenskri þjóðsögu, saga af draug sem af dauðans þrá vill draga heitkonu sína í hafið og á leiðarenda. Drottningar hafdjúpanna (kannski sjósundkonur nútímans) annast móttökurnar hver á sinn hátt, Bylgja, Alda, Bára, Unnur, Hrönn og Rán. Droparnir þungu vísa leiðina allt til enda…..

Textinn er eftir Skúla Þórðarson og lagið eftir Ragnar Karl Ingason.

Ómar Guðjónsson lagði Slagarasveitinni lið með gítarleik sínum en túlkun hans fleytir hlustendum út yfir óravíddir hafs og lands.

Halldór Ágúst Björnsson stjórnaði upptökum, útsetti lagið, annaðist forritun og hljómborðsleik.

Slagarasveitina skipa:
Geir Karlsson : bassi
Skúli Þórðarson : trommur  og raddir
Stefán Ólafsson : gítar og raddir
Valdimar Gunnlaugsson : söngur

Aðsent