Hinn sjö ára gamli kött­ur Grete Hove í Álasundi í Nor­egi er heimakær og fer aldrei langt frá heim­ili sínu. En þann 9. júní hvarf hann skyndi­lega og eft­ir nokkra daga fór Hove að hafa áhyggj­ur.

Upp­hófst mik­il leit og hengd­ar voru upp aug­lýs­ing­ar þar sem lýst var eft­ir kisu. En allt kom fyr­ir ekki.

Um svipað leyti var ís­lensk fjöl­skylda að flytja úr húsi sínu í ná­grenn­inu. Hún ætlaði að flytja aft­ur til Íslands og hafði fengið gám að húsi sínu þangað sem hús­gögn­in voru flutt. Gám­ur­inn átti svo að fara um borð í skip til Íslands. Eng­inn hafði tekið eft­ir því að kött­ur hafði laumað sér inn í gám­inn.

Í frétt um málið á vef norska rík­is­út­varps­ins seg­ir að eig­andi katt­ar­ins Pus hafi verið bú­inn að gefa upp alla von.

En á Íslandi bar til tíðinda. Er gám­ur Al­dís­ar Gunn­ars­dótt­ur og fjöl­skyldu var opnaður í gær voru katt­ar­hár úti um allt.

Al­dís seg­ist hafa áttað sig á að kött­ur hefði kom­ist inn í gám­inn en hann lét hins veg­ar ekki finna sig í fyrstu. „Ég óttaðist að hann væri dauður,“ seg­ir Al­dís í sam­tali við NRK.

Þau tóku næst­um öll hús­gögn­in út úr gámn­um áður en þau komu auga á Pus. Hann stóð í einu horni gáms­ins, mjög hrædd­ur Hann var horaður og hafði misst mikið af brönd­ótt­um feldi sín­um.

Al­dís þekkti ekki kött­inn en reiknaði með að hann væri í eigu ein­hvers fyrr­ver­andi ná­granna síns í Álasundi. Hún setti því mynd af hon­um á Face­book og fékk staðfest­ingu á grun sín­um skömmu síðar.

Grete Hove seg­ist auðvitað glöð að Pus hafi fund­ist og það á lífi en að ætl­ar þó ekki að reyn­ast ein­falt að koma hon­um aft­ur heim. Ekki verður hægt að flytja hann, að því er seg­ir í frétt NRK, fyrr en hann hef­ur verið bólu­sett­ur á Íslandi og fengið þar til gerð ferðaskil­ríki. Slíkt er í hönd­um Mat­væla­stofn­un­ar.

Hove von­ar þó að Pus kom­ist aft­ur heim inn­an fárra daga.

 

Af mbl.is
Mynd: úr einkasafni