Kristín R. Trampe, handverkskona hefur hlotið nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2025.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 21. nóvember 2024 að útnefna Kristínu R. Trampe sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2025.
Kristín R. Trampe hefur til fjölda ára verið með opna vinnustofu í Ólafsfirði, Smíðakompuna, á gamla vinnustaðnum sínum, apótekinu við Aðalgötu, þar sem hún jafnframt býður til sölu einstaklega falleg handunnin listaverk úr viði og öðrum efnum. Kristín hefur um árabil leikið sér við útsögun, útskurð og smíðar en hún sagar alla sína muni með tifsög og notar ýmsan efnivið.
Kristín hóf feril sinn í handverki með útskurði og tálgun en eignaðist sína fyrstu tifsög sextug að aldri. Hún lærði útskurð hjá Jóni Hólmgeirssyni á Akureyri og dýpkaði þekkingu sína á námskeiðum hjá Sigríði Jónu Kristjánsdóttur, betur þekktri sem Siggu á Grund. Ástríða hennar fyrir handverki og hæfileikinn til að skapa einstök verk hafa fangað athygli bæði heimamanna og gesta Fjallabyggðar.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar þakkar fyrir þær tilnefningar sem bárust í ár og óskar Kristínu innilega til hamingju með þessa heiðursnafnbót.
Kristín verður formlega útnefnd við hátíðlega athöfn í upphafi árs 2025, þar sem jafnframt verða afhentir menningarstyrkir Fjallabyggðar fyrir sama ár. Frekari upplýsingar um athöfnina verða auglýstar þegar nær dregur.