Kristín Sigurrós Einarsdóttir hefur verið ráðin í starf forstöðumanns Héraðsbókasafns Skagfirðinga.
Kristín tekur við starfinu af Þórdísi Friðbjörnsdóttur sem mun láta af starfi forstöðumanns í sumar.
Starf forstöðumanns felur í sér allt sem viðkemur starfsemi bókasafns svo sem rekstur, mannaforráð, gerð fjárhagsáætlana, innkaup, grisjun, stjórnun, skipulag safnkennslu, umsýslu og fleira. Forstöðumaður kemur fram fyrir hönd safnsins og sér um kynningarmál þess, skipuleggur þjónustu safnsins og leiðir faglega starfsemi þess.
Kristín lauk mastersgráðu vorið 2022 á menntavísindasviði Háskólans á Akureyri, þar sem hluti af náminu voru námskeið um upplýsingatækni. Einnig hefur Kristín lokið B.Ed. gráðu í kennarafræðum og fjöldanum öllum af símenntunarnámskeiðum sem mörg hver voru á sviði kennslu, bókmennta og upplýsingatækni. Einnig hefur hún lokið svæðisleiðsögunámi, bæði á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum.
Kristín hefur starfað sem forstöðumaður Héraðsbókasafns Strandasýslu, sem er bæði almennings- og skólabókasafn, en í dag starfar hún sem verkefnastjóri hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Kristín hefur þar fyrir utan umtalsverða starfsreynslu í upplýsinga- og safnageiranum sem og ýmiskonar verkefna- og viðburðastjórnun.
Forsíðumynd: ja.is