Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar undirritað reglugerð um veiðar á loðnu.

Alls heimilar reglugerðin veiðar íslenskra skipa á allt að 662.064 tonnum sem gefur væntingar um að komandi vertíð verði sú stærsta í tæp 20 ár.
 
Nýverið kynnti Hafrannsóknastofnun ráðgjöf fyrir loðnuveiðar vertíðarinnar 2021-2022 upp á 904.200 tonn. Í samræmi við alþjóðlega samninga fær Ísland 80% þess magns eftir að tekið hefur verið tillit til tvíhliðasamninga við önnur ríki. Aflaverðmæti þessarar vertíðar er áætlað um 50 milljarðar og hefjast veiðar á morgun 15. október.
 
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Það er mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að undirrita reglugerð sem gefur væntingar um að komandi vertíð verði sú stærsta í um tvo áratugi. Þetta eru frábærar fréttir fyrir einstaka byggðir í landinu en um leið samfélagið allt enda skapar þetta miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og eykur líkur á að okkur takist að vaxa enn hraðar út úr kórónuveirukreppunni á næstu mánuðum”.

Mynd: stjornarradid.is