KS-ingar (Knattspyrnufélag Siglufjarðar) ætla að gera sér glaðan dag í tilefni af 90 ára afmæli félagsins.
Dagskrá afmælishátíðar KS
KÁ-ESS! ALDUR OG FYRRI STÖRF. 40 MYNDIR OG SKOPTEIKNINGAR
Á vefsíðu KF segir segir eftirfarandi:
“Siglfirska íþróttamenn greinir nokkuð á um það hvort Knattspyrnufélag Siglufjarðar var stofnað árið 1928 eða 1932. Í grein sem rituð er í KS blaðið árið 1950 er sagt að kunnugt sé að félagið hafi verið stofnað 1928 en að fundargerðir frá þeim tíma séu glataðar. Um stofnendur félagsins segir:
“Það voru þeir Kjartan Bjarnason, gjaldkeri Sparisjóðs Siglufjarðar, Þorvaldur Stefánsson, framkvæmdastjóri BSO á Akureyri, ég, undirritaður (Aage Schioth), Erlendur Þorsteinsson, fyrrv. Alþingismaður, Einar Bjarnason, skipstjóri, Finnur Gíslason og nokkrir aðrir Siglfirðingar sem stofnuðu KS. Voru hinir fyrst töldu í stjórn félagsins.”
Það segir ennfremur í greininni að félagið hafið staðið með talsverðum blóma fram til ársins 1931 og síðan hafi nokkrir áhugasamir íþróttamenn tekið höndum saman og haldið nokkurs konar endurvakningarstofnfund félagsins árið 1932.
Í félagsfána KS er miðað við árið 1932 og telst það vera opinbert stofnár félagsins. Tómas Hallgrímsson fyrrverandi formaður KS og mikill áhugamaður og stuðningsmaður félagsins til fjölda ára taldi tildrögin að stofnuninni þau, að í júní 1932 hafi nokkrir ungir menn og drengir verið að æfingu á svonefndri Kveldúlfsbryggju. Að lokinni æfingu settust þeir niður og fóru að bera saman bækur sínar um stofnun knattspyrnufélags og ákveðið að kjósa þriggja manna nefnd til viðræðna við Halldór Guðmundsson, kaupmann, sem átti lóðirnar neðan við Hertervigsbakaríið. Þessar lóðir fengust leigðar gegn því að þær yrðu fylltar upp og skyldi koma endurgjald fyrir verkið ef svæðið yrði tekið af eigendum til annara nota innan tíu ára. Sömu piltar komu svo saman á ný og var stofnfundur félagsins haldinn í veitingastofu Hertervigsbakarís, en fyrstu stjórnina skipuðu Óli Hertervig, formaður, Sveinn Hjartarson, ritari og Hafliði Halldórsson, gjaldkeri.
Á fullveldishátíðinni 1944 var félaginu afhendur íþróttavöllur við Túngötu til afnota og hefur sá völlur verið í notkun síðan, bæði fyrir æfingar og leiki. Völlurinn var aðalvöllur félagsins allt til ársins 1988 þegar nýr grasvöllur var tekinn í notkun við Íþróttamiðstöðina að Hóli.
Meistaraflokkur félagsins hefur á síðustu árum lengst af spilað í 2. deild Íslandsmótsins en náði þeim merka árangri sumarið 2000 að komast í 1. deild. Meistaraflokkur kvenna spilar með sameiginlegu liði Þór/KA/KS í efstu deild. Félagið er nú það langstærsta á Siglufirði og voru iðkendur innan þess rúmlega 200 á árinu 2002 og hefur starfsemi þess sífellt verið að aukast á síðustu árum”.
Mynd/Steingrímur Kristinsson