Kvenfélagið ÆSKAN í Ólafsfirði færði heilsugæslunni að Hornbrekku veglega gjöf fyrir skemmstu. Formleg afhending fór fram mánudaginn 27. janúar síðastliðinn og veitti Þorfinna Ellen Þrastardóttir, ljósmóðir, tækinu viðtöku fyrir hönd heilsugæslunnar á Hornbrekku.
Hér er um að ræða ómskoðunartæki af gerðinni Eagle view. Að sögn Þorfinnu er hægt að nota tækið í fleira en mæðravernd en það mun nýtast mest á því sviði.
Í mæðraverndinni nýtist tækið meðal annars í að greina hjartslátt fósturs fyrr en hægt hefur verið hingað til og það nýtist einnig vel til að staðfesta legu barns ef það er óljóst með klínísku mati. Að sögn Þorfinnu hefur hingað til þurft að senda konur til Akureyrar til þess að staðfesta legu svo þetta er mikil bæting á þeirri þjónustu sem hægt er að bjóða uppá hér heima.
Á forsíðumynd má sjá kvenfélagskonurnar Naree Kerdthale, Soffíu Eggertsdóttur, Sæbjörg Bjarnadóttur, Snjólaugu Ástu Sigurfinnsdóttur og Kristínu Adólfsdóttur afhenda Þorfinnu Ellen Þrastardóttur ómskoðunartækið.
Mynd/aðsend