Konur um allt land taka höndum saman í dag og hlaupa til að hvetja aðrar konur til þáttöku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­innar á Íslandi.

Í Fjallabyggð hefst hlaupið kl. 11:00, í Ólafsfirði verður farið frá Íþróttamiðstöðinni og á Siglufirði frá Ráðhústorginu.

Á heimasíðu Sjóvá segir að fyrsta Kvenna­hlaupið var haldið árið 1990. Upp­haf­lega var markmið hlaups­ins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátt­töku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­innar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, ís­lenskar íþrótta­konur eru að ná frá­bærum ár­angri á heimsvísu og margar konur í for­svari fyrir íþrótta­hreyf­ing­una hér­lendis.

Í dag er áherslan ekki hvað síst á sam­stöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum for­sendum og eigi ánægju­lega sam­veru­stund með fjöl­skyldu og vinum.

Hlaupið er ár­viss viðburður hjá mörgum konum sem taka dag­inn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vin­konum sínum og margir karl­menn slást líka í hóp­inn.

Sjóvá Kvenna­hlaup ÍSÍ er haldið á yfir 80 stöðum á land­inu. Fjöl­menn­asta hlaupið er haldið í Garðabæ og einnig fer stórt hlaup fram í Mos­fellsbæ. Á lands­byggðinni fara einnig fram fjöl­menn hlaup sem skipu­lögð eru af öfl­ugum konum í hverju bæj­ar­fé­lagi fyrir sig.

Íslenskar konur sem eru bú­settar er­lendis hafa einnig tekið sig til og haldið Kvenn­hlaup víða um heim, í Dan­mörku, Nor­egi, Svíþjóð, Fær­eyjum, Þýskalandi, Belgíu, Lúx­em­borg, Mall­orca, Banda­ríkj­unum, Mósam­bík og Namibíu.

 

Forsíðumynd: Kvennahlaup ÍSÍ á Sigló