Í október tekur í gildi nýr opnunartími á Bókasafni Dalvíkurbyggðar. Nýir opnunartímar í vetur verða frá 11.00-16.00 alla virka daga nema á fimmtudögum er opið frá 11.00-17.00. Laugardagsopnanir haldast óbreyttar frá 13.00-16.00.
Á fimmtudögum, þegar opið er til 17.00, verður lögð áhersla á bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir börn og fullorðna og munum við kalla það Fjölskyldustundir á bókasafni. Samverustundirnar verða opnar öllum og afþreying dagsins auglýst á facebook síðu bókasafnsins.
Þá er einnig kynnt til leiks nýjung hjá bókasafninu en það er Kvöldopnun einu sinni í mánuði. Kvöldopnanir verða annan fimmtudag hvers mánaðar og verður þá safnið opið frá 18.00-22.00.
Þessi kvöld verður hefðbundin opnun á bókasafni, opið fyrir skil, útlán og almenna afþreyingu. Þessi kvöld verða einnig auglýst sem spilakvöld þar sem einstaklingar og hópar geta komið saman og spilað spil í eigu bókasafnsins eða komið með sín eigin spil að heiman.
Á heimasíðu Dalvíkurbyggðar segir. “Með þessu langar okkur að opna bókasafnið okkar enn frekar fyrir samfélaginu og skapa óháðan félagslegan vettvang fyrir fólk að koma saman án þess að það þurfi að greiða sérstaklega fyrir það. Þessi kvöld verða einnig nýtt til uppábrots í framtíðinni, s.s. spilakynningar, upplestur, ljóðakvöld, prjónaklúbbar, leshringi, ljósmyndagreiningar, námskeið og áfram mætti lengi telja. Möguleikarnir eru ótakmarkaðir og við hlökkum til að þróa þetta áfram í samstarfi við íbúa samfélagsins”.
Á kvöldopnunum verður opið á kaffihúsinu fyrir léttar veitingar og er vonað að íbúar Dalvíkurbyggðar taki vel í þessa nýbreytni bókasafnsins í samstarfi við Menningarhúsið Berg. Kvöldin verða auglýst vandlega á heimasíðu bókasafnsins og samfélagsmiðlum safnsins
Fyrsta kvöldopnunin verður fimmtudaginn 13. Október – opið frá 18.00-22.00 – Nánar auglýst þegar nær dregur.