Ólöf Rún Ólafsdóttir skipar 10. sæti H-Listans í Fjallabyggð.
“Ólöf Rún Ólafsdóttir heiti ég, uppalin á Siglufirði.
Ég er í sambúð með Marsý Dröfn Jónsdóttur, en hún er í fæðingarorlofi og er að hefja störf þar á móti við aðhlynningu á Heilbrigðisstofnun Norðurlands og sem þjálfari í knattspyrnu í Fjallabyggð. Eigum við saman eitt barn, hana Ísabellu Sólbjörgu sem verður 1 árs í sumar. Við búum á Hafnartúni 30 á Siglufirði.
Ég er 22 ára og hef búið á Siglufirði nær alla mína ævi, en ég fluttist til Akureyrar árið 2019 og ekki leið á löngu þar til við fjölskyldan fluttumst til fallegu Fjallabyggðar sumarið 2021. Ég hef starfað við leikskólastörf, við aðhlynningu á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, í Notendastýrðri Persónulegri Aðstoð ásamt öðrum félagslegum störfum og þjónustustörfum.
Áhugamálin liggja helst í samverustundum með fjölskyldu og vinum, ferðalög og tónlist. Einnig hef ég áhuga á fjárbúskap sem ég hef fengið að kynnast í Fljótum hjá foreldrum mínum.
Ég fór að velta fyrir mér sveitastjórnarmálunum eftir að við urðum foreldrar og komum okkur fyrir í eigin húsnæði. Ég legg mikla áherslu á líðan og upplifun barna í Fjallabyggð, öll börn eiga að hafa jöfn tækifæri í lífinu.
Það sem ég brenn fyrir er að Fjallabyggð sem búsetustaður verði betri fyrir alla núverandi og verðandi íbúa, því þarf m.a. að huga að búsetuúrræðum eldri borgara og málefnum öryrkja og fatlaðra. Ég vil sjá reglulegri samgöngur milli byggðakjarna frá morgni til kvölds, ég tel að það myndi efla tengingu milli bæjarbúa enn betur. Einnig vil ég að ungt fjölskyldufólk horfi til Fjallabyggðar sem besta búsetukostinn á svæðinu. Það þarf m.a. að gera grunnskólann gjaldfrjálsan, efla okkar góða leikskóla og styðja enn betur við gott starf íþróttafélaga með t.d. auknum fjárstyrk til UÍF.
Merkjum x við H!
Ólöf Rún Ólafsdóttir
H-Listinn—fyrir heildina”.