Birgitta Þorsteinsdóttir er 32 ára Siglfirðingur. Hún er gift Hólmfríði Ósk Norðfjörð Rafnsdóttur. Birgitta á 2 stjúpdætur og eina ömmustelpu. Birgitta er með B.Ed í kennarafræðum og er að ljúka meistaragráðu í kennarafræðum á grunnskólastigi með áherslu á upplýsingatækni í skólastarfi, við Háskólann á Akureyri.

Birgitta starfar við Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem hún kennir upplýsingatækni, sjónlistir og ýmsa áhugaverða valáfanga.

Birgitta er einnig að ljúka 2 àra námi sem andlegur einkaþjálfari og er búin að leggja í langa vegferð í sjálfsrækt þar sem hún hefur öðlast nýja sýn á lífið og er tilbúin að elta drauma sína og kenna öðrum hið sama.

Birgitta hefur brennandi áhuga og ber mikla virðingu fyrir starfinu sínu og nemendur hennar eru henni mjög mikilvægir. Hún vinnur öflugt starf með nemendum sínum og samstarfsfólki með fjölbreyttum kennsluháttum og er tilbúin að hjálpa nemendum sínum að þroskast, þróast og mótast með skapandi aðferðum í kennslu og tækninýjungum.

Birgitta hefur alla tíð haft mikinn áhuga á lífinu eins og það leggur sig, þetta skrítna líf sem er fullt af áskorunum. Hún hefur einnig mikinn áhuga á tónlist, myndlist, sköpun, útivist og tækni. Flestar helgar er hún DJ Náttfríður eða Gitta Kviss.

Áherslur Birgittu eru meðal annars:

  • Velferð nemenda í sveitarfélaginu m.a. með virkri þátttöku þeirra á sviði sjálfsræktar, allt sem viðkemur sjálfstyrkingu, markmiðasetningu og að byggja sjálfan sig upp.
  • Framþróun og breytingar í menntamálum með því að leggja meiri áherslu á sköpun, upplýsingatækni og nýsköpun og að flétta það inn í námsgreinar.
  • Að vera leiðandi í málefnum hinsegin fólks í sveitarfélaginu m.a. með því að efla sýnileika, fræðslu, auka þekkingu og tryggja að umhverfið okkar sé hvetjandi og jákvætt fyrir þennan frábæra hóp. Því barátta hinsegin fólks, rétt eins og önnur jafnréttisbarátta, er í stöðugri þróun og lýkur seint eða aldrei.