Katrín Freysdóttir skipar 4. sæti H-Listans í Fjallabyggð.

“Katrín Freysdóttir heiti ég, 45 ára Siglfirðingur og hef búið á Siglufirði alla tíð. Ég er gift Heimi Birgissyni, járnsmið hjá SR Vélaverkstæði og saman eigum við 4 börn, Rakel Rut 23 ára, Birnu Björk 18 ára, Steinunni Svanhildi 17 ára og Birgi Braga 13 ára.

Ég útskrifaðist af viðskipta og hagfræðibraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra vorið 1997 og hóf fljótlega störf hjá Skattstofu Norðurlands vestra, sem nú er Skatturinn, og hef verið það meira og minna síðan þá.

Félagsmál hafa alltaf verið mér hugleikin og hef ég verið í stjórnum ýmissa félaga og ráða, svo sem foreldrafélaga bæði leikskóla og grunnskóla, barna og unglingaráði KF, skólanefnd Menntaskólans við Tröllaskaga, stjórn Sinawik klúbbs Siglufjarðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Málefni fjölskyldufólks og aldraðra eru mér afar hugleikinn. Tel ég því mikilvægt að sveitarfélagið bjóði fjölskyldufólki og öldruðum góða þjónustu og styðji við eins vel og unnt er. Til þess að svo sé þarf að gæta að álögum og gjaldtökum leik- og grunnskóla. Hvetja til og auðvelda þróun og starf leik- og grunnskóla Fjallabyggðar. Koma á reglulegum samgöngum milli bæjarkjarnanna, sem eru nauðsynlegar til að auðvelda börnum aðgengi að því fjölbreytta íþróttastarfi sem í boði er í Fjallabyggð. Hafa heildræna sýn á uppbyggingu þeirra íþróttamannvirkja sem eru í Fjallabyggð. Vinna að langtímaáætlun íþróttamálum, í samvinnu við þau íþróttafélög sem starfandi eru í Fjallabyggð. Huga að húsnæðismálum,meðal annars hvetja til nýbygginga. Auka þá þjónustu sem öldruðum býðst.

Unnið er frábært starf á Hornbrekku og Skálarhlíð en því starfi eru takmörk sett, meðal annars hvað varðar húsnæði og starfsfólk. Finna þarf úrræði og lausnir til að auðvelda fólki að eiga áhyggjulaust ævikvöld, í viðunandi húsnæði og með þjónustu sem mætir þeirra þörfum.

Ég vil leggja mitt að mörkum til styðja við og bæta það góða starf sem þegar er unnið í Fjallabyggð og taka þátt í að koma okkur á þann stað sem við viljum sjá okkar flotta sveitarfélag á.

Setjum x við H!
Katrín Freysdóttir
H-Listinn—fyrir heildina”.