Tómas Atli Einarsson skipar 2. sæti D-Listans í Fjallabyggð.
Tómas Atli Einarsson er 50 ára fæddur í Reykjavík en fluttist til Ólafsfjarðar 1995. Tómas er kvæntur Þuríði Guðbjörnsdóttur, þau eiga þrjú börn, barnabörn þeirra eru fjögur.
Tómas er menntaður steinsmiður með stúdentspróf frá MTR.
Tómas er framkvæmdastjóri og eigandi Skiltagerðar Norðurlands, hann hefur verið bæjarfulltrúi síðustu fjögur ár ásamt því að vera formaður hafnarstjórnar. Hann starfar sem snjóathugunarmaður hjá Veðurstofu Íslands og er formaður Björgunarsveitarinnar Tinds. Helstu áhugamál Tómasar eru fjölskyldan sem og skíði, fjallahjól og almenn útivist.
Það er Tómasi hugleikið að gera Fjallabyggð að fyrirmyndarsamfélagi fjölskyldufólks, bæta námsumhverfi, hvetja og styðja alla til allra góðra verka sem bæta og auðga okkar samfélag.
Atvinnumál, samgöngumál og hvers konar uppbygging á innviðum sem geta leitt til bættrar þjónustu, betri aðstöðu, fjölgunar starfa og fjölgað íbúum sveitarfélagsins eru málefni sem honum eru hugleikin.
Nauðsyn þess að móta stefnu til framtíðar í málefnum sveitarfélagsins er Tómasi ljós. Því er það honum mikið keppikefli að koma á samtali við til dæmis hagaðila, notendur og rekstraraðila íþróttamannvirkja í Fjallabyggð.