Nemendum sem eru að ljúka námi í MTR býðst að gera stórt verkefni að eigin vali sem metið er til fimm eininga í sérstökum áfanga. Að þessu sinni nýttu fjórir útskriftarnemar tækifærið.

Guðni Berg skoðaði kosti þess að koma upp leiksvæðum inni í bæjum sem nýta mætti bæði vetur og sumar. Niðurstaða hans var að kjöraðstæður væru á Dalvík og í Ólafsfirði til að skipuleggja svæði fyrir yngri börn þar sem þau gætu rennt sér á skíðum í litlum brekkum og stundað aðrar vetraríþróttir. Á sumrin mætti nota svæðin fyrir margvíslegar íþróttir og leiki. Slík svæði myndu auka öryggi barna og veita þeim margvísleg ný tækifæri. Þá væri hagræði að hafa svæðin í göngufæri við heimili barnanna. Myndin sem fylgir fréttinni er skjáskot úr kynningu Guðna. Leiðbeinandi hans í verkefninu var Lísebet Hauksdóttir.

Svala Marý Sigurvinsdóttir fjallaði um þunglyndi unglinga. Hún gerði grein fyrir einkennum, orsökum og afleiðingum þunglyndis. Jafnframt sagði hún frá úrræðum og hvert unglingar geta leitað eftir aðstoð vegna þunglyndis. Svala Marý skilaði lokaverkefni sínu í formi heimasíðu og bæklings sem hún hannaði og myndskreytti. Leiðbeinandi var Sigríður Ásta Hauksdóttir.

Ásta María Harðardóttir rannsakaði hvort kynjamunur kæmi fram í leikjum barna á þriðja ári. Athugun var gerð á leikskóla í Kópavogi og fylgst með tveimur kynjablönduðum hópum. Niðurstaðan var að tilgáta um kynjamun var staðfest, í báðum hópum tóku strákar frumkvæði í leik og stúlkur fengu ekki að taka þátt nema fá leyfi frá strákunum. Leiðbeinandi við verkefnið var Hjördís Finnbogadóttir.

Bjarki Magnússon fjallaði um afleiðingar covid-19 í íþróttaheiminum í lokaverkefni sínu með sérstakri áherslu á bandarísku NBA deildina í körfuknattleik. Þar eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir undir og voru útbúin sérstök æfingasvæði þar sem leikmenn lokuðu sig inni mánuðum saman og hittu ekki aðra en iðkendur í sömu grein. Leiðbeinandi Bjarka var Óskar Þórðarson.

Kynning á verkefnunum fór fram á Google Meet eins og skólastarf hefur að mestu leyti gert á síðari hluta haustannar. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari stýrði kynningunni.