Ólöf Ólafsdóttir

Á bænum Tannstaðabakka í Hrútafirði búa hjónin Skúli Einarsson og Ólöf Ólafsdóttir.  Fréttamenn Trölla heimsóttu þau heiðurshjón síðast liðið sumar og tóku viðtal við þau. Hér á eftir fer brot úr viðtalinu við Ólöfu, sem berst hetjulegri baráttu við Parkinsons sjúkdóminn. Til stendur að flytja viðtalið við þau hjónin í heild á FM Trölla. Það verður nánar auglýst þegar að því kemur.

Ólöf greindist með Parkinsons fyrir rúmlega þremur árum, líklega hefur hún verið með sjúkdóminn mun lengur. Það var ekki fyrr en ættingi kom í heimsókn og spurði “hvað kom fyrir þig Ólöf mín” að þau hjónin gerðu sér grein fyrir því hve alvarlegt ástandið var.

Í framhaldinu fór hún að taka til í saumaherberginu sínu, fann þar fullt af bútum og hugsaði með sér að hún gæti a.m.k. gert eitthvað úr þeim. Ólöf byrjaði á að sauma barna- bútasaums teppi sem hún hugsaði sér að gefa til Rauða krossins, ef enginn vildi kaupa teppin.

Hér má sjá hluta af efnisbútum Ólafar, margir hafa lagt henni lið með því að gefa henni efni.

Raunin varð sú að fólk er mjög duglegt bæði að gefa henni efni, og að kaupa framleiðsluna, þannig að “þetta hefur allt gengið út” segir Ólöf.

Hún auglýsir á Facebook, selur á jólamörkuðum og nú síðast var hún á “Eldinum”, sem er árviss bæjarhátíð Húnaþings vestra og kallast Eldur í Húnaþingi.

Í fyrra gerði Ólöf 36 bútasaums teppi og er búin með yfir 50 á þessu ári.

 

Verið að sníða til, efnisbúta í teppi.

Þegar Ólöf var spurð hvort hún sjái fyrir sér með þessu svaraði hún hlæjandi:

“Nei nei, ég er búin að fá mitt út úr því, þegar ég er búin að setja saman teppið og sauma það, þá finnst mér ég vera búin að fá það sem ég er að sækjast eftir, fá gleðina út úr því að skapa þetta, þannig að þegar ég sel teppin, fer andvirðið inn á sér reikning, og svo afhendi ég það Velferðarsjóði Vestur Húnvetninga.”

 

Það er mikil kúnst að velja saman liti.

Ólöf tekst á við sjúkdóminn af miklu æðruleysi. “Það þýðir ekkert að hafa áhyggjur af því í dag hvernig þú verður eftir 10 ár. Lífið er núna”. Hún segist vera alveg viss um að saumaskapurinn hjálpi til í baráttunni við hann, bæði fínhreyfingar í höndum, “því maður þarf að vera nákvæmur bæði við að sníða og sauma, og svo þarf maður að nota hausinn svolítið, við að setja saman liti”, segir Ólöf glaðlega.

Hún hefur það mottó að setja saman teppi úr því sem hún á til, “ég fer ekki út í búð til að kaupa bláan af því mér finnst vanta blátt, heldur finn ég aðra samsetningu í staðinn.”

 

Ólöf að velja saman liti.

Hún hefur líka alltaf haft mjög gaman af hreyfingu og líkamsrækt sem hún stundar af kappi, þótt hún þurfi að fara til Hvammstanga til þess.  Skúli vinnur nú að því að koma upp flottri líkamsræktaraðstöðu fyrir Ólöfu heima á Tannstaðabakka.

Ólöf og Skúli eiga fjögur börn, þrjár dætur og einn son. Barnabörnin eru orðin átta.

Fyrir þau sem áhuga hafa á að kaupa listilega falleg teppi þá heldur Ólöf úti facebooksíðu þar sem hægt er að hafa samband við hana. Sjá: Velferðateppi Ólafar

 

Hér má sjá allskonar búta sem verða að lokum falleg teppi.

 

Fullkláruð teppi.

 

Ólöf með eitt af bútasamsteppunum sem hún hefur klárað.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir