Um áramótin tók til starfa ný stofnun matvælaráðuneytisins, Land og skógur, sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar á landsvísu. Ágúst Sigurðsson var skipaður forstöðumaður í september 2023 og hefur hin nýja stofnun tekið við hlutverkum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Hugmyndinni um sameiningu stofnanna tveggja hefur verið varpað nokkrum sinnum fram í gegnum tíðina en varð loks að veruleika í júní árið 2023 þegar frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar varð að lögum á Alþingi.

Fyrsta heildarstefnan í landgræðslu og skógrækt, Land og líf, var birt ásamt aðgerðaáætlun í ágúst árið 2022 og mun nýtast nýrri stofnun vel í sinni framtíðarstarfsemi.

„Þetta eru mjög ánægjuleg tímamót,“ sagði matvælaráðherra. „Við sameiningu þessara systurstofnana skapast tækifæri til að nýta enn betur þá miklu þekkingu sem þar er að finna og vinna á enn markvissari hátt að sjálfbærri nýtingu lands ásamt uppbyggingu og endurheimt vistkerfa.“

Mynd/Hari