Í síðustu viku var undirritaður samningur milli Fjallabyggðar, Skógræktarfélags Ólafsfjarðar og Skógræktarfélags Íslands um ræktun Landgræðsluskógar í Ólafsfirði.
Svæðið sem ætlað er undir ræktun Landgræðsluskógarins er í hlíðinni fyrir ofan byggð í Ólafsfirði og er 62,8 hektarar að stærð og nær frá Brimnesá í norðri að Hlíð í suðri.
Samningurinn felur í sér að sveitarfélagið veiti leyfi til 50 ára til ræktunar á svæðinu og að Skógræktarfélag Íslands sjái Skógræktarfélagi Ólafsfjarðar fyrir trjáplöntum til gróðursetningar.
Markmiðið með ræktun landgræðsluskóga er að stuðla að landvernd og tryggja íbúum sveitarfélagsins og almenningi svæði til útivistar um ókomna tíð.