Borgaryfirvöld í Las Palmas de Gran Canaria hyggjast innleiða heildstæða reglugerð um hreinlæti og úrgangsstjórnun sem mun ná bæði til íbúa og gesta. Reglurnar fela í sér háar sektir, jafnvel fyrir smávægileg brot, með það að markmiði að stuðla að hreinni og umhverfisvænni borg.
Unnið er að tveimur aðaláætlunum:
- Lögum um hreinlæti í almenningsrýmum
- Úrgangsstjórnunaráætlun fyrir árin 2025 til 2032
Samkvæmt nýju reglunum gætu borgarbúar og gestir átt von á eftirfarandi viðurlögum:
- 750 evrur fyrir að henda sígarettustubbi á götuna
- 750 evrur fyrir að hirða ekki upp eftir hundinn sinn
- Allt að 100.000 evrur fyrir að losa húsgögn eða stóra hluti ólöglega í almenningsrýmum
- Allt að 3,5 milljónir evra fyrir að losa hættulegan úrgang sem getur ógnað fólki eða umhverfi
Carolina Darias, borgarstjóri Las Palmas, segir markmiðið vera að breyta hegðun og viðhorfum með áherslu á fræðslu og forvarnir. Alvarleg brot verði þó meðhöndluð af fullri hörku.
Héctor Alemán, borgarfulltrúi með málefni götuhreinsunar á sinni könnu, segir áætlunina fela í sér endurbætur á söfnunarkerfum, nýjum tækjum og búnaði, auk bættra aðstæðna og hlífðarfatnaðar fyrir starfsfólk.
Þá stendur einnig til að nýta nýjustu tækni og búnað við sorphirðu og hreinsun borgarinnar.
Áður en reglurnar taka formlega gildi verður sett af stað opin samráðsgátt þar sem borgarbúum gefst kostur á að leggja fram athugasemdir og hugmyndir.
Markmið borgarinnar er skýrt: Las Palmas á að verða hreinni, umhverfisvænni og með meiri virðingu fyrir almenningsrýmum. Þeir sem ekki fylgja nýjum reglum eiga von á háum sektum.