Frá árinu 1998 hafa starfsmenn Einingar-Iðju farið í skólaheimsóknir í alla 10. bekki á félagssvæðinu. Vanalega er vorönnin notuð, en að ósk Akureyrarbæjar var ákveðið að fara í skólana á Akureyri núna. Farið verður með fræðslu í aðra skóla á félagssvæðinu næsta vor eins og áður. Í morgun heimsótti Anna, varaformaður félagsins,  Síðuskóla og Brekkuskóla og voru krakkarnir mjög áhugasamir og komu með fjölmargar spurningar til Önnu.

Þessi fræðsla skilar sér með aukinni aðsókn ungmenna til félagsins með allskyns mál, en í þessum heimsóknum er m.a. dreift bæklingnum „Láttu ekki plata þig!“ og kynnt fyrir nemendum í hverju starf stéttarfélaga er fólgið og um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

Bæklingurinn er sérstaklega ætlaður ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, en með honum býður verkalýðshreyfingin allt ungt fólk velkomið í hóp félaga sinna og heitir því liðsinni sínu og væntir einnig þátttöku ungs fólks í félagslegu starfi hreyfingarinnar.

Starfsmenn félagsins hafa einnig farið í Verkmenntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Akureyri og kynnt félagið og farið yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

 

Mynd: Eining-Iðja