Mynd/Húnaþing vestra

Síðastliðinn þriðjudag fór fram vígsla viðbyggingar við Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra að viðstöddu fjölmenni.

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti fór yfir sögu byggingarinnar sem var að mestu unnin af heimamönnum.  Ráðbarður sf. sá um hönnun hússins sem hófst árið 2016.  Fyrsta skóflustungan var tekinn um mitt ár 2017 og var uppsteypu lokið vorið 2018 og húsinu lokað þá um sumarið. Tók þá við frágangur innanhúss og utan sem lauk nú í haust.  Stærð viðbyggingarinnar er 300 m2

Með tilkomu viðbyggingarinnar er aðstaða í Íþróttamiðstöðinni orðin hin besta og þjónusta við íbúana hefur aukist verulega.   Anddyrið var stækkað og móttaka og aðkoma  gesta orðin  góð .  Aðstaða til íþróttaiðkunar hefur batnað verulega með góðum þrektækjasal með einstöku útsýni yfir fjörðinn og nýjum tækjum og búnaði.  Einnig minni sal sem gefur mörguleika á að vera með hóptíma og fjölbreyttar æfingar.  Markmiðið er að koma til móts við fjölbreyttan notendahóp á öllum aldri.

Aðstaða starfsfólks og kennara hefur batnað sömuleiðis  Góð áhaldageymsla  er í húsinu auk þess sem geymslupláss hefur aukist.  Aðgengi fyrir fatlaða hefur verið bætt með tilkomu lyftu og nýrrar snyrtinga fyrir fatlaða, einnig er nýtt dómaraherbergi með sturtuaðstöðu. Auk þess var eldri búningsaðstaða tekin upp að hluta, loftræsting og myndavélakerfi endurnýjað.

Þessar breytingar skapa ný tækifæri til að halda stærri íþróttaviðburði og hægt er að bjóða íþróttafélögum um land allt upp á fyrirtaks aðstöðu fyrir æfingahelgar.

Að lokinni yfirferð Þorleifs Karls tók fulltrúi ungmennaráðs Húnaþings vestra, Guðmundur Grétar Magnússon til máls og að lokum Anton Scheel Birgisson framkvæmdastjóri Ungmennasambands vestur Húnvetninga.   Dagskránni lauk með metnaðarfullri sýningu ungmenna sem æfa hestafimleika hjá hestamannafélaginu Þyt.

Myndir frá athöfninni má sjá á facebook síðu Húnaþings vestra.