Skíðakonan Laufey Petra Þorgeirsdóttir var valin íþróttamaður Fjallabyggðar árið 2025 við hátíðlega athöfn í Tjarnarborg í gærkvöldi. Þar var jafnframt besta og efnilegasta íþróttafólk sveitarfélagsins heiðrað. Frá þessu er greint á fjallabyggd.is, þar sem einnig má sjá fleiri myndir frá verðlaunaafhendingunni.
Tilnefningar bárust úr fjölmörgum keppnisgreinum og endurspeglaði valið öflugt og fjölbreytt íþróttastarf í Fjallabyggð. Allar tilnefningar má skoða hér á fjallabyggd.is.
Valið á íþróttamanni ársins fór fram í samstarfi Kiwanisklúbbsins Skjaldar og Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar, ásamt íþróttafélögum innan UÍF. Sömu aðilar stóðu að viðburðinum í Tjarnarborg.
Fjallabyggð óskar Laufeyju Petru innilega til hamingju með titilinn og óskar henni áframhaldandi velfarnaðar á íþróttaferlinum.
Meðfylgjandi mynd tók Hjalti Gunnarsson.




