Aðstæður öryrkja hafa verið í umræðunni í þjóðfélaginu svo lengi sem menn muna og umræðan sérstaklega hávær undanfarin ár.
Sú umræða kemur ekki af góðu, gengur mikið til út á að öryrkjar Íslands eigi ekki til hnífs og skeiðar.
Sitt sýnist hverjum um aðbúnað og framfærslu öryrkja. Virðist vera þannig í umræðunni að margir af þessum þjóðfélagshóp eigi þessi örlög skilið. Fólk nenni ekki að vinna, séu algjörir svindlarar upp til hópa og lifi á samborgurum sínum.
Þessi umræða er svo hávær að þeir öryrkjar sem hafa ekki sýnilega fötlun fara með veggjum og þora ekki fyrir sitt litla líf að láta á því bera að þeir tilheyri þessum hópi.
Trölli.is fékk launaseðil öryrkja sendan og hefur það verið ákveðið að birta laun hans mánaðarlega til að sýna svart á hvítu þennan blákalda raunveruleika sem við íslendingar bjóðum öryrkjum uppá, svo ekki sé talað um eldri borgara.
Öryrkinn sem þennan launaseðil á lenti í slysi á unga aldri og hefur ekki náð fullum bata eftir það. Með árunum hefur þetta slys haft aukinn áhrif á líf og heilsu sem hefur gert það að verkum að hann er ófær um líkamlega vinnu.
Eins og öryrkinn sagði sjálfur “hef bara aldrei ímyndað mér að þetta hlutskipti væri svona niðurlægjandi, nema að lenda í því sjálfur. Hef skilað af mér góðu lífsbúi hingað til, lifi venjulegu heimilislífi, á börn sem eru vaxin út grasi og þau eru góðir þjóðfélagsþegnar. En ég er með þann stimpil að vera úrhrak íslensks þjóðfélags, eins og sjá má á launaseðlinum mínum”.
Örvænting þeirra sem lifa við þessi kjör er sérstaklega erfið núna í desember. Hvernig fólk getur almennt lifað á þessum launum er hreint út sagt óskiljanleg.
Öryrkinn vill að lokum koma þessu á framfæri. “Ég vil ekki vorkunnsemi, ég vil einungis fá að vera manneskja í Íslensku þjóðfélagi, vera maður með mönnum”.