Trölli.is fær sendan launaseðil öryrkja mánaðarlega. Hér er hægt að sjá svart á hvítu þann blákalda raunveruleika sem öryrkjar á Íslandi búa við.
Í þetta sinn sendi öryrkinn þessar línur með launaseðlinum.
“Nú er tíminn hugsa vel hvert um annað,“ sagði Katrín Jakobsdóttir
Það hefur verið rætt mikið um mikilvægi mannslífa og að verja mannslíf að undanförnu í þjóðfélaginu eins og von er á þessum myrku tímum.
Forsætisráðherra allra landsmanna Katrín Jakobsdóttir nefndi í ávarpi sínu til þjóðarinnar á dögunum meðal annars “. Það veit sá einn sem reynt hefur að vera atvinnulaus hvað það er erfitt og lamandi. Það er ekki eingöngu efnahagslegt áfall, heldur getur það verið sálrænt og líkamlegt. Ábyrgð okkar stjórnvalda er að styðja enn betur við fólk í erfiðum aðstæðum. Og það munum við gera. Því nú er tíminn hugsa vel hvert um annað,“ sagði Katrín jafnframt.
það er hræðilegt til þess að hugsa að svo margir séu atvinnulausir eða við það að missa atvinnuna og auðvitað á að styðja vel við bakið á fólki á þessum erfiðu tímum.
Það hefur sýnt sig að það er til nægt fjármagn til að styðja við bakið á fólki og fyrirtækjum, einnig okurfyrirtækjum sem hafa verið að borga sér milljarða í arðgreiðslur!
Fá á sig stimpil ómaga í boði stjórnvalda
En aftur að okkur öryrkjum. Það er mjög mikið áfall að verða fyrir skerðingu á starfsorku og oftast í leiðinni skerðingu á lífs- og leikgleði.
Að sitja uppi með ævarandi örorku vegna slyss í blóma lífsins og geta enga björg sér veitt, fá á sig stimpil ómaga í boði stjórnvalda sem hefur síðan áhrif á viðhorfs almennings er sú mesta lífskerðing sem hugsast getur.
Það býður upp á að lenda í sárri fátækt ár eftir ár í boði ríkisstjórnarinnar og er mannvonska á hæsta stigi. Að finna fyrir þessum fordómum af hendi þeirra sem baðar sig í þessum orðum “Ábyrgð okkar stjórnvalda er að styðja enn betur við fólk í erfiðum aðstæðum. Og það munum við gera. Því nú er tíminn hugsa vel hvert um annað” Er sárara en tárum taki.
Sjá eldri fréttir: LAUNASEÐILL ÖRYRKJA