Velferðarnefnd leggur til að rekstur Hornbrekku verði færður aftur til ríkisins
Velferðarnefnd Fjallabyggðar hefur fjallað um erindi bæjarráðs vegna Hornbrekku. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samningi sveitarfélagsins við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið um rekstur heimilisins verði sagt upp og að reksturinn verði færður aftur til ríkisins.
Í bókun nefndarinnar segir að tryggja verði samfellu í rekstri, að þjónusta verði órofin og að ekki komi til uppsagna starfsmanna við stofnunina.
Starfsemi Hornbrekku sem dvalar- og hjúkrunarheimilis er talin afar mikilvæg fyrir íbúa Fjallabyggðar, bæði vegna þeirrar þjónustu sem veitt er á heimilinu og vegna atvinnu sem fylgir rekstrinum. Á Hornbrekku eru um 28 stöðugildi, fastir starfsmenn eru 38 og 16 starfsmenn sinna afleysingum.
Undanfarin ár hefur rekstur Hornbrekku verið íþyngjandi fyrir sveitarfélagið
Undanfarin ár hefur rekstur Hornbrekku verið íþyngjandi fyrir sveitarfélagið. Í áætlunum hefur verið gert ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri, sem nemur tugum milljóna árlega. Velferðarnefnd bendir á að rekstur hjúkrunarheimila sé samkvæmt lögum á ábyrgð ríkisins, ekki sveitarfélaga, og að það sé óeðlilegt að íbúar greiði niður slíkan rekstur. Umleitanir um aukið rekstrarframlag frá ríkinu hafi lítið skilað og hallinn því aukist.
Hornbrekka hefði hlotið viðurkenningu sem Eden-heimili
Sunna Haraldsdóttir, starfandi forstöðumaður Hornbrekku, sat fund nefndarinnar og fór yfir starfsemi heimilisins. Hún benti á að Hornbrekka hefði hlotið viðurkenningu sem Eden-heimili, sem er gæðastimpill um framtíðarsýn og markmið í starfi til að efla lífsgæði íbúa, aðstandenda og starfsfólks.
Á fundinum kom jafnframt fram að félagsstarf á Hornbrekku sé öflugt en þrengsli setji því takmarkanir. Mikil ásókn er í dvöl á heimilinu og eftirspurn meiri en hægt sé að mæta. Samstarf Hornbrekku við leikskóla og grunnskóla í Fjallabyggð var einnig dregið fram sem jákvætt og gefandi.
Nefndin ræddi einnig um mikilvægi þess að huga að framtíðarmönnun, endurmenntun og stuðningi við starfsfólk sem vill bæta við sig námi. Þrátt fyrir að staða sé góð nú, verði verkefnin sífellt fjölbreyttari og því brýnt að tryggja starfsfólki framþróun og stuðning til framtíðar.
Málið verður nú tekið til umfjöllunar í bæjarstjórn Fjallabyggðar.