Barnamenningardagar Fjallabyggðar verða haldnir dagana 24. – 27. október 2020 þar sem í boði verða meðal annars sköpunarsmiðjur, listsmiðjur, skapandi námskeið, fræðsla, upplestur, ljóðlist, jóga, fjöllistir, framandi matargerð, sýningar og fleira fyrir börn og ungmenni.

Markmiðið með Barnamenningardögum er að efla menningarstarf barna, gefa þeim tækifæri til að kynnast flóru menningar og lista í samfélaginu og sem þátttakendur að rækta hæfileika sína til listsköpunar, veita þeim hvatningu til skapandi hugsunar og kynna þeim heim og umhverfi menningar og lista.

Gæði, fjölbreytni, jafnræði og gott aðgengi allra barna í samfélaginu er haft að leiðarljósi við skipulagningu hátíðarinnar. Námskeið og viðburðir verða í boði fyrir öll börn, óháð kyni, stöðu og sérstöðu á aldrinum 2ja -16 ára.

Tryggt verður að börnum í báðum byggðakjörnum Fjallabyggðar, Ólafsfirði og Siglufirði, standi til boða sambærileg námskeið en Fjallabyggð tryggir að auki akstur milli bæjarkjarna til að jafnræðis sé gætt óháð búsetu. Námskeið og viðburðir fara fram hvort heldur sem er  á starfsvettvangi barnanna það er innan leik,-  grunn- og tónlistarskóla sem og úti í náttúru eða inni á vinnustofum listamanna og á söfnum og setrum.

Ítarleg dagskrá verður gefin út í október.

Langar þig að leggja Barnamenningardögum lið og bjóða upp á viðburð, smiðju eða hvað eina sem þér hugnast, tengt börnum og menningu hafðu þá endilega samband við markaðs- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar á netfangið lindalea@fjallabyggd.is eða í síma 464-9100.