Leikskólarnir í Fjallabyggð héldu upp á dag barnasáttmálans í gær föstudaginn 20. nóvember og sendi Vibekka Arnardóttir okkur fréttir frá leikskólastarfinu.
Hér á landi, og víða annars staðar, njóta börn mismikilla forréttinda. Sem dæmi um réttindi sem öll börn eiga að njóta er fæði og klæði, menntun, heilsuvernd, hvíld, tómstundir, leikir og skemmtanir sem hæfa aldri þeirra og þroska og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum. Börn eiga hins vegar ekki rétt á að njóta ákveðinna forréttinda eins og t.d. að fá alltaf uppáhaldsmatinn sinn eða sælgæti, að eiga sérstök leikföng, æfa tilteknar íþróttir eða að ganga í tónlistarskóla, eða að spila á hljóðfæri.
Við byrjuðum á fimmtudaginn að ræða um mannréttindi barna og lásum aðeins yfir bókina Rúnar góði. Í spjalli á meðan bókin var lesin þá voru börnin meðal annars spurð “hverju ráða börn eða hverju ræður þú?” svör barnanna voru svo hengd upp í gluggann á deildinni til fróðleiks og skemmtunar.
Í vinnu okkar komu jólin aðeins inní umræðuna og notuðum við tækifærið og spurðum börnin hvað væri nú skemmtilegast við jólin.
Að sjálfsögðu svöruðu þau að þá fengju þau pakka og þarna skapaðist tækifæri til að spjalla við börnin um þá sem minna mega sín og hvort/hvað við gætum gert þeim til hjálpar.
Börnin sem sögðu öll að þau fengju jólagjafir voru fús til að gefa eina af sínum gjöfum til þeirra sem fengu engar. Eftir gott spjall þá ákváðum við að fara með pakka til Önnu Hermínu (pakkar sem starfsfólkið ætlaði í verkefnið) og biðja hana um að koma þeim til einhverra barna sem annars fengju ekki pakka.
Allir fengu einn pakka í poka og mæltum við okkur mót við Önnu Hermínu í morgun. Það er skemmst frá því að segja að börnin voru mjög ánægð með geta gefið eitthvað til þeirra sem ekki fengju neinar gjafir. Eftir heimsókn til Önnu Hermínu þá lá leið okkar að fatasöfnunargámum Rauða krossins og fórum við aðeins yfir það til hvers þessir gámar eru.
Mjög skemmtileg vinna sem börnin höfðu mjög gaman af. Við í leikskólum Fjallabyggðar höldum okkar striki hvað varðar réttindi barna og viðhöldum vináttu og virðingu í öllum samskiptum.
Grein og myndir/aðsent