Í vikunni sem leið var þátturinn „þetta er helst” á RÚV með umfjöllun um bæjarstjóramálin í Fjallabyggð.

Fréttamaður RÚV á Norðurlandi, Selma Margrét Sverrisdóttir hefur síðustu vikurnar reynt að fá svör við því af hverju Sigríður Ingvarsdóttir lét af störfum.

Þar segir Helgi Jóhannsson bæjarfulltrúi í minnihlutanum meðal annars.
„Við fáum sjálfsagt aldrei að vita allt saman en sannarlega hefur eitthvað gerst þarna á milli meirihlutans og bæjarstjórans þannig að það hefur skort traust á milli aðila,“ segir Helgi Jóhannsson, bæjarfulltrúi í minnihlutanum í Fjallabyggð, aðspurður um starfslok bæjarstjórans í sveitarfélaginu rétt fyrir jól.

Við munum ekki tjá okkur um starfslok fyrrverandi bæjarstjóra

Forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa ekki greint frá því af hverju Sigríður hætti og hafa ekki viljað veita viðtal um málið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þetta á bæði við um formann bæjarráðs, Guðjón M. Ólafsson, og forseta bæjarstjórnar, Sigríði Guðrúnu Hauksdóttur.

Einnig var rætt um stjórnsýslu- og rekstrarúttekt frá ráðgjafafyrirtækinu Strategíu í þættinum.

Hlusta á þáttinn og aðra umfjöllun RÚV: HÉR

Mynd/Björn Valdimarsson