Nemendur MTR í áfanganum ÍSLE2FM05 hafa síðustu þrjár vikur kynnt sér og rannsakað undirstöðuatriði um málsnið, hljóðfræði og mállýskur.

Líka hafa þeir skoðað muninn á vönduðu formlegu málfari og óvönduðu óformlegu málfari og þar að auki hvernig formlegt málfar geti verið óvandað og eins að óformlegt málfar geti verið vandað.

Eftir kynningu í fyrstu vikunni skiptu nemendur sér í hópa og hófust handa við rannsókn. Sumir fylgdust með málfari í völdum dagskrárliðum í útvarpi eða sjónvarpi en aðrir tóku viðtöl t.d. við afa eða ömmu, börn, ungling í Reykjavík, nýbúa eða kennara. Líka var hægt að skoða rapptexta eða uppistand.

Hóparnir settu fram rannsóknartilgátur og prófuðu þær. Afurðum var svo skilað á sameiginlegt svæði nemenda og kennara í áfanganum. Eftir það fór fram jafningjamat og sjálfsmat á kynningunum. Þær voru líflegar og fjölbreyttar og þótti verkefnið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt þótt einstaka nemandi lenti í vandræðum með sinn hlut í hópvinnunni.

Kennarar í áfanganum eru Kolbrún Halldórsdóttir og Margrét L. Laxdal.

Hér er sýnishorn úr áfanganum: Andri, Hafsteinn, Hrannar og Ragnar ræða við Lísebet og Þórarinn. https://www.youtube.com/watch?v=olPhekv0b5A&feature=youtu.be

Skoða á vef Menntaskólans á Tröllaskaga