Forsaga málsins:
Haustið 1914 kemur upp sakamál, varðandi falska danska peningaseðla um borð í strandferðaskipinu Flora sem er á leið vestur fyrir land á leið sinni til Reykjavíkur. Sýslumaðurinn í Stykkishólmi handtekur tvo menn, annar er veitingamaður frá Sauðárkróki og hinn er ljósmyndari frá Akranesi. Í farangri þeirra finnast 900 krónur í fölsuðum 10 og 100 króna seðlum, tilheyrandi þjóðbankanum í Kaupmannahöfn. Við yfirheyrslur kemur í ljós að seðlarnir eru falsaðir af ljósmyndaranum Jóni Pálma Jónssyni á Sauðárkróki og við húsleit þar, eftir handtöku, finnast í fórum hans ljósmynda plötur þær, er seðlarnir höfðu verið gerir með. „Þeir voru fremur vel gerðir, eftir sem hægt var með ljósmyndun, en þó svo útlits að hvert barnið gæti séð að þeir voru falsaðir.“
Úrdráttur úr ( Fréttablaðið – 45. tölublað (06.11.1914) timarit.is.
Í örstuttu æviágripi sem fylgir með upplýsingum um forsíðuljósmyndina, sem er fengin að láni frá Héraðskjalasafni Austur Húnavatnssýslu (HAH), sem sýnir okkur ljósmyndarann Jón Pálma, ungan að árum, segir eftirfarandi:
„Jón Pálmi Jónsson f. 28. janúar 1888 – 6. ágúst 1962. Var á Gunnfríðarstöðum, Svínavatnssókn, Hún. 1890 og 1901. Var í Hafnarstræti 41 á Akureyri, Eyj. 1910. Varð ljósmyndari á Sauðárkróki. Flutti til Noregs, síðan Danmerkur og loks til Kanada.“
Ýmsar munnmælasögur hafa skapast um ýmislegt varðandi eftirmál í þessu peningafölsunar dómsmáli og þá einna helst sögur um hvernig Jón Pálmi komst úr landi og ekki síst flótta hans innanlands.
Sannleikurinn hefur þó lengi verið þekktur sem hálf opinbert leyndarmál í föðurætt pistlahöfundar, sem nú hefur undir höndum bæði persónuleg bréf frá Jóni Pálma, sem og afrit af 20 handskrifuðum bls. Ýtarleg greinargerð Siglfirska fræðimannsins Jóns Jóhannessonar, sem á þessum tíma er umboðsmaður og verkstjóri fyrir hin Norska Elías Roalds, 1915 og er hann sá maður sem tók við Jóni Pálma þegar hann kom dulbúinn sem kvenmaður yfir Skarðið til Siglufjarðar um miðjan ágúst
Jón Pálmi er síðan geymdur, samkvæmt leynilegu samkomulagi fram á haust, í fjárhúsi sunnarlega í firðinum, nánar tiltekið í Leyningi, en þar bjuggu hjónin Sigurður Árnason og Salbjörg Engilráð Jónsdóttir. Langafi og langamma höfundar þessarar samantektar. Bærinn Leyningur, stóð sunnan við núverandi skógræktar svæði í Skarðsdal, en sjálf fjárhúsin nokkuð sunnar og ofar í fjallshlíðinni.
Leyndarmálið í Leyningi…
.. er viðeigandi titill á þessa sögu, því Jón Pálmi er þar í felum í fleiri vikur, því hann kemst ekki í skip fyrr enn um haustið og engir aðrir en þau Leyningshjónin og Jón Jóhannesson vissum um viðverustað hans á Siglufirði. Sjá má í bréfum sem berast leynilega seinna til þeirra hjóna að Jón Pálmi er um alla eilífð þakklátur þeim sem hjálpuðu honum að flýja land.
Hér getum við staldrað aðeins við og spurt af hverju fólk sé viljugt til að fela dæmdan mann, en Jón Pálmi fékk í Héraði 2 ár og 2 mánuði sem fangelsisdóm fyrir sinn hluta í peningafalsmálinu. Hann viðurkenndi brot sitt skýlaust og var það ætíð þekkt að hann sjálfur hafði engan persónulegan hagnað af brotinu. Vildi meira sýna fram á hæfileika sína sem ljósmyndari og hvað hægt væri að gera með góðri tækni. Jón Pálmi er sagður hafa mikið vel getað hugsa sér að sitja af sér 2 mánuði með gleði, en ekki 2 ár. Honum hryllti líklega einnig við tilhugsuninni um þá fordóma sem myndu mæta honum í þessu litla landi að lokinni langri fangelsisvist.
Jón Pálmi á sér ekki sögu sem þekktur glæpamaður, hann er almennt vel liðin og bráðgáfaður ungur maður og mjög svo klár ljósmyndari.
Jón Jóhannesson sem og Sigurður og Salbjörg, taka mikla áhættu með því að hylja yfir slóð eftirlýst manns, en Jón Roaldssöltunarplans verkstjóri, sem og Leyningshjónin, virðast í hugleiðingum sínum, um hvort þau eigi að taka að sér að hjálpa Jóni Pálma, sem er aðeins 26 ára í upphafi málsins. Ekki getað séð að þessi ungi efnilegi ljósmyndari verði betri maður, af því að sitja lengi í fangelsi.
Pistlahöfundur minnist þess að afi Nonni, Jón Ólafur Sigurðsson ( Jón í Hrímni ) vildi aldrei tjá sig um þetta mál, þó svo að flestum hafi Þótt að foreldrar hans hafi gert mikið góðverk með því að fela Jón Pálma, en stundum er góðverk samtímis glæpur og kannski hvíldi einhver skömm og hræðsla yfir þessu máli, um hvernig aðrir myndu túlka þetta svokallaða góðverk… jafnvel hálfri öld seinna. Þessi bréf o.fl. sem vitnað er í fundust í skókassa í dánarbúi afa Nonna.
Þessar tvær ljósmyndir eru teknar (líklega af honum sjálfum, kringum 1914) á Ljósmyndastofu Jóns Pálma á Sauðárkróki. Þær birtast ykkur hér, endurunnar með gervigreind af Steingrími Kristinssyni. Í texta sem fylgir með myndunum frá HAH segir meðal annars:
“… Eftir nokkra dvöl í gæsluvarðhaldi var Jóni sleppt gegn tryggingu, en vorið 1915 hverfur hann og er í felum fram á sumar. Þá tekst Jóni, á ævintýralegan hátt, að komast til Siglufjarðar og þaðan til Noregs… Mikill ævintýrablær er á frásögnum um Jón og er ekki laust við að votta megi fyrir aðdáun á manninum. Hann var sagður vel gerður og kunnur sem glímumaður, skákmaður og hagyrðingur. “
Hér er dæmi um eina vísu eftir Jón Pálma:
Einn um grundu veg ég vel,
við það lund mín hlýnar.
Bjarkar undir blöðum fel
bestu stundir mínar.
Þáttur af Jóni Pálma (síðari hluti)…
… ritað af Jóni Jóhannessyni í febrúar 1943.
Þetta eru eins og áður er nefnt, samanlagt 20 þétt skrifaðar síður og greinargóð lýsing á atburðum og lífi Jóns Pálma og annarra sem tóku þátt eða áttu ómeðvitað hlutverk í að bjarga Jóni Pálma frá langri fangelsisvist. Skemmtilega vel skrifuð og spennandi frásögn, þar sem engu er haldið undan. Þar af er þetta merkileg saga sem lýsir vel tíðarandanum á Íslandi/Siglufirði á þessu herrans ári 1915. Frásögninni lýkur síðan í sögu um heimsókn Jóns Jóhannessonar til Jóns Pálma í Bergen í Noregi í desember 1915.
Hér mun pistlahöfundur stikla á stóru og draga fram það sem er athyglisvert og margt og mikið af því lyftir hulunni af ýmsu sem sagt hefur verið í næstum þjóðsagna kenndum munnmæla sögum á síðustu öld.
Jón Jóhannesson skrifar:
Jón Pálmi var all lengi í gæsluvarðhaldi á Sauðárkróki. Loks var honum sleppt gegn tryggingu, snemma vors 1915, hvarf Jón þar af Sauðárkróki. Var hans leitað mikið og eftir honum lýst, en árangurslaust og héldu flestir að hann hefði fyrirfarið sér, svo var þó raunar ekki. Komst Jón um sumarið til Siglufjarðar og um haustið þaðan til Noregs með Norsku flutningaskipi.
Verður hér sagt nokkuð frá dvöl Jóns í Siglufirði, hvernig hann komst af landi burt og frá dvöl hans í Noregi.
ATH. Jón Jóhannesson segir ekkert um hvar Jón Pálmi var í felum áður en hann kom til Siglufjarðar, en ljóst er að ljósmyndarinn ungi á sér velvildarmenn í bæði Skagafirði og Húnavatnssýslu.
Sögumaðurinn Jón er við vinnu á skrifstofunni í Roaldsbrakka, þegar tveir menn koma og segjast þurfa að ræða einslega við hann. Þetta eru þeir Sigurjón Jónsson frá Óslandi í Skagafirði, gamall nágranni Jóns Jóhannessonar og hinn kynnir sig sem Hjálmar Þorsteinsson frá Húnavatnssýslu.
Í fyrstu er mikið talað undir rós og nefndur “pakki” sem þyrfti að komast óséður erlendis og en svo kemur sannleikurinn í ljós, að um er að ræða hin eftirlýsta Jón Pálma.
… ég kvað Sigurjón furðu djarfan, að vilja fá mig til að bindast að koma undan strokumanni sem eftir væri lýst og gerast með því sekur við lög landsins. Sigurjón kvað líta megi lögin frá fleiri hliðum og taldi hann það drengskaparbragð af mér að bregðast nú við nauðsyn Jóns og þeirra að bjarga honum…
… Hjálmar hafði lítið sagt til þessa, en nú talaði hann til mín og á allt annan veg en Sigurjón. Kvað hann Jón Pálma vera æskuvin sinn og sér mjög kæran. Hann væri drengur hinn besti, en skapgerð hans þann veg farið að löng fangelsisvist myndi hafa skaðleg áhrif á hann. Bað Hjálmar mig innilega að bindast í málið, ég bað þá að finna mig að tveimur stundum liðnum og fóru þeir svo frá mér að sinni.
Ég hugsaði nú málið, skaut þá upp í huga minn 13 ára gömlum atburðum, er maður mér nákominn hafði strokið úr varðhaldi og komist af landi burt. Fann ég að ég gat ekki annað en talið það þeim mönnum til drengskapar, sem léð höfðu honum liðsinni. Þetta réði úrslitum um ákvörðun mína.
Þeir Sigurjón og Hjálmar komu aftur að ákveðnum tíma liðnum, ég hafði á meðan brugðið mér fram að Leyningi, fremsta bæ í Siglufirði, þar er mjög afskekkt og þar voru þá aðeins þrjár manneskjur í heimili og treysti ég þeim til þagmælsku. Þar bjuggu þá, Sigurður Árnason og Salbjörg Jónsdóttir, hin mesta gæða kona. Var ég í vinfengi við þau hjón. Ég fór þess nú á leit við þau að þau geymdu Jón Pálma fram á haustið, því ég ætlaði alveg ógerlegt að geyma hann hjá mér eða annar staðar niðri í bænum.
Skýrði ég þeim rétt frá öllum málavöxtum, því annað sá ég ekki fært, enda treysti ég að fullu þagmælsku þeirra hjóna. Lagði ég nú ráð á hversu geymslu Jóns Pálma skyldi hagað. Skyldi hann fluttur um nóttina til þeirra hjóna og geymdur þar í fjárhúsi afskekktu efst þar á túninu og þau færa honum mat og aðrar nauðsynjar þangað, því ekki taldi ég viðeigandi að geyma hann heima á bænum.
Ég sagði þeim Sigurjóni að svar mitt væri það að ég lofaði engu ákveðnu öðru, en því að vera þögull hvað um fyrir kynni að koma. Ég mundi reyna að veita Jóni lið ef ég sæi mér það fært án þess að setja mannorð mitt í hættu.
Hvort ég gæti orðið Jóni Pálma að liði, væri í rauninni allt undir tilviljunum komið.
Þeir vildu fá mér peninga, en ég vildi það ekki og sagði þeim að ég gerði þetta ekki peningana vegna, sem og var satt. Þó varð það úr að þeir neyddu upp á mig hundrað krónur fyrir ófyrirséðum útgjöldum, en sögðu Jón Pálma hafa nægilegt skotsilfur til að greiða fyrir veruna í Leyningi og far sitt út, ef til kæmi. kvöddust við að því búnu og þeir Sigurjón og Hjálmar fluttu Jón Pálma um kvöldið að Leyningi og fólu hann forsjá þeirra hjónanna þar og skal það tekið fram að þau reyndust Jóni trú í öllu og fórst hið besta í hans garð.
Kom í kvenbúningi yfir Skarðið
Þess skal getið hér að Jón hafði leynst um daginn mjög skammt frá bæ þeirra. Jón Pálmi hafði ferðast í kvenbúningi vestan yfir fjallið, en kastaði hann klæðnaðinum áður en hann kom að Leyningi. Fannst kvenbúnaðurinn um haustið í fjárhúsréttinni og vissi enginn hvernig á honum gæti staðið og var ýmsum getum af því leitt og komst þó enginn nærri hinu sanna. Ætluðu margir að kvennfatnaðurinn stæði í sambandi við eitthvað ástarævintýri einhverrar síldarskúlkunnar og féll umtalið brátt niður.
Jón Pálmi dvaldi nú í Leyningi, eða öllu heldur í fjárhúsinu, sem var kallað Háagerði um sumarið og fram í septembermánuð. Ég fór nokkrum sinnum frameftir og heimsótti hann, færði honum blöð og bækur að lesa og spjallaði við hann nokkra stund í hvert sinn, en ekki þótti mér annað ráð en hafa heimsóknir mínar fáar og helst þegar þoka var. Fór ég þá oftast fram fyrir og ofan Skarðsdal og beint niður að Leyningi.
Jón lét vel af lífinu þarna, nema hvað helst amaði að honum að hann taldi sig ekki geta hreyft sig nægilega úti og réði ég honum að taka sér hlaupaspretti á kvöldin þegar dimmt var orðið og það gerði hann.
Á daginn var hann alltaf kyrr inni og las þá og skrifaði og talsvert gerði hann af því að því þetta sumar að yrkja. Bréf sem hann skrifaði vinum sínum, sá ég um, en ekki vogaði ég annað en setja umslög utan um og skrifa sjálfur utan á, svo rithönd Jóns ekki þekktist á þeim.
Ég hafði fullan hug á að koma Jóni af landi burt, en aðstaðan var erfið. Stríðið var nú komið í algleymingi og eftirlit var strangt í Noregi um útlendinga sem þangað komu. Ég talfærði það við tvo norska skipstjóra kunningja mína hvort þeir gætu tekið með sér mann, sem þyrfti að komast yfir hafið án þess að almenningur vissi um.
Þeir vildu vita hvernig stæði á högum hans og sagði ég að orsökin væri óhamingjusöm ástarmál. Ekki líst þeim á það og töldu því öll formerki, sérstaklega ef maðurinn hafði ekki vegabréf og önnur nauðsynleg skilríki. Ég hitti nú Jón Pálma og lét hann vita um þetta og duldi hann þess ekki að horfurnar um flutning hans yfir hafið væru fremur lélegar. Ég sagði honum samt að ég væri enn ekki vonlaus að ég mundi halda áfram tilraunum mínum, því enn voru mörg hinna norsku síldveiðiskipa ófarin heim.
Ég skal annála kjark Jóns og bjartsýni, það var síður en svo að hann lýti vonina horfna, ekki einu sinni þótt svo kynni að fara að hann kæmist ekki þetta haustið og þá væri bara að bíða til næsta sumars og ég sannfærðist um það sem ég kynntist Jóni Pálma og skapgerð hans betur, að það væri gott verk að hjálpa honum undan refsivendi laganna, jafnvel þótt mér væri vel ljóst að ég með því framdi lögbrot.
Loksins kom hið langþráða tækifæri!
Í byrjun september kom flutningaskip frá Haugesundi til að taka síld á Siglufirði og á síðan að fara beint til Bergen í Noregi. Það er gufuskip, rúmlega 1000 smálestir og hét _____? Skipstjórinn heitir Fröland, góður vinur minn og mesti dáðadrengur….
Jón Jóhannesson segir síðan frá samningaviðræðum sínum við Fröland skipstjóra, sem segist i rauninni ekki hafa pláss fyrir auka farþega, hann er bundin samningi um að taka með 7 norska verkamenn sem höfðu unnið hjá Roald yfir sumarið á Sigló. Þar fyrir utan er kokkurinn ekkert hrifin af aukavinnunni sem fylgir því að elda ofan í þessa auka farþega áhöfn. Ef þú getur sannfært kokkinn þá get ég hugsað mér að taka manninn með, ég hola honum einhvers staðar niður. Í versta tilfelli læt ég hann sofa á bekknum inni í svefnklefanum mínum.
Nú bætir Jón Roalds verkstjóri við…. maður þessi verður að flytjast héðan með leynd og enginn hér á landi má vita um ferð hans, þú verður að dylja hann vandlega til þú ert kominn út á rúmsjó.
Fröland hvessir á mig augun og varð þungbrýnn á svipinn. Hvað meinar þú? Maðurinn er sekur við lög landsins og þarf að flýja undan refsingunni. Hvað hefur hann gert? Hefur hann drepið mann, nauðgað konu eða eitthvað þesskonar?
Ég neitaði því og bætti við… hann skrifaði nafn á víxil, en því miður var það ekki hans eigið nafn. Það flaug með eldingar hraða í huga mínum að ekki væri heppilegt að nefna peningafölsun, en þetta var talsvert skylt.
Nú svoleiðis, sagði Fröland og hvað fær hann mikið fyrir það? Sennilega tvö til þrjú ár, svaraði ég, án þess að vita hvort Það væri nærri veruleika. Ég fullvissaði Fröland um að hann gerði gott verk með því að hjálpa manni þessum og að ég væri alveg viss um að maðurinn mundi rétta við ef hann fengi tækifæri til að fríast við hina þungu refsingu. Ég átti hægt um að tala um fyrir Fröland á þessum grundvelli, því þetta var sannfæring mín!
Fröland vildi fá að hugsa málið til morguns, ég bíð nú í ugg og ótta, þar til Fröland kemur heim til mín daginn eftir. Skipstjórinn segist vera til í þennan vinargreiða, en undirstrikar að hann sjálfur veit ekkert um þennan mann og vill ekki einu sinni vita hvað hann heitir.
Hann verður að hafa gilt vegabréf, annars lendi ég í veseni úti í Bergen. Þeir komast síðan að samkomulagi um að Jón Pálmi komi um borð nóttina fyrir brottför.
Ég fór nú frameftir og lét jón Pálma vita hvernig málum var komið og að hann yrði að vera tilbúinn með augnabliks fyrirvara, þegar ég léti hann vita.
Var Jón nú glaður við þetta.
Í seinni hluta sögunnar sem birtist næsta sunnudag, er meðal annars farið yfir æsispennandi sögu varðandi brottför Jóns Pálma frá Siglufirði, með tilheyrandi vegabréfa vandræðum. Sögur frá Bergen í Noregi o.fl. samt sagt frá vináttu og persónulegum bréfum sem berast alla leið frá Ameríku, í áratugi eftir flótta Jóns Pálma frá Íslandi.
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd o.fl.:
Mynd fengin að láni frá Héraðsskjalasafni Austur Húnavatnssýslu.
Endurunnin af pistlahöfundi.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og Héraðsskjalasafni Austur Húnavatnssýslu.
ATH. Endurvinnsla á myndgæðum:
Í eldri ljósmyndum er gerð með gervigreind af Steingrími Kristinssyni og pistlahöfundi
Vísað er í ýmsar heimildir í greininni og í tímarit.is.