Framhald af sögunni: Leyndarmálið í Leyningi – Fyrri hluti
Vegabréfa vandræði og sjö verða átta!
ATH. Vegabréf á þessum tíma eru ekki flókin skjöl. Enginn mynd, aðeins nafn og stimplar með upplýsingum um ferðaáætlun o.fl.
… en nú var eftir að fá vegabréfið. Hér var þá ungur lögreglustjóri. Hann var hinn gagnvandaðasti maður og ætlaði engum manni hrekki eða brellur. Mér fannst ég ómögulega sjálfur geta logið út passa hjá honum, en annars staðar var ekki um passa að ræða…
… Ég hugsaði málið: Sjö verkamenn norskir áttu að fara með skipinu, þurftu þeir að fá passa?
Hvað um að láta þá vera átta!
Einn þeirra sjö hét Kristoffer Johannesson, gamall Björgvinarbúi, eineygður greindar karl og ábyggilegur. Ég afréð að gera hann að trúnaðarmanni mínum. Roaldsverkstjórinn útskýrir aðstæður í trúnaði við Kristoffer gamla og hann segir bara stutt og laggott, þagað get ég.
Eftir þetta hringir Jón Jóhannesson í lögreglustjórann og segir að það komi maður til hans með átta norsk nöfn, þeir þurfi allir að fá gild vegabréf fyrir ferðalag sitt til Bergen. Skömmu seinna hefur Roaldsverkstjórinn Jón, átta gild vegabréf í höndum sér.
Jón Pálmi Jónsson heitir nú Arne Hanssen…
… og er nú norskur ríkisborgari, og sæmilega mælandi á norska tungu. Vegabréfin er afhent Fröland skipstjóra og brottför skipsins er áætluð kl. 07.00, daginn eftir.
Jón Jóhannesson segir síðan: Þetta vegabréf dugði Jóni Pálma vel, eigi einungis við landgöngu í Noregi, heldur og við dvöl hans þar og annars staðar á Norðulöndum næstu árin og mun einnig hafa dugað honum til þess að fá nýtt og fullkomnara vegabréf í Kaupmannahöfn þegar hann síðar fór vestur um haf. En hann varð alltaf á Norðurlöndum að gangast undir nafninu Arne Hanssen og vera norskur að þjóðerni.
Villtur í svartaþoku
Jón Pálmi fær boð um koma á miðnætti niður í Hafnarfjöru og gefa sig fram þegar hann sér árabát nálgast land. Jón Jóhannesson hefur fengið í lið með sér mág sinn Jón Gíslason, sem hann treystir jafn vel og sjálfum sér.
… Kringumstæðurnar virtust ætla að verða okkur hagstæðar. Um kvöldið rak yfir þoku, svo svarta að varla sá faðm frá sér. Ég fór um borð um kvöldið til að bíða þar, taka á móti Jóni og kveðja hann. Við Fröland sátum yfir toddíglasi þar til kl. 12 á miðnætti, en þá fórum við upp á þilfar, biðum þar og störðum út í þokuna og hlustuðum eftir áraglamrinu. Við biðum til kl. 01 og enginn kom. Enn biðum við og klukkan varð 2.
Mágurinn Jón Gíslason kemur síðan einn um borð og segir að Jón Pálmi hafi ekki komið í Hafnarfjöruna. Nú eru góð ráð dýr og ekkert vit í að leita að honum í þokunni. Fröland skipstjóri segir að það sé ekkert mál að hann komi um borð snemma morguns.
Mágarnir Jón og Jón treysta síðan á að Jón Pálmi komi heim til Roaldsverkstjórans, en hann hafði fengi greinagóða lýsingu á staðsetningu hússins. Loks kemur Jón Pálmi og segist hann hafa villst í þokunni og beðið á röngum stað og farið síðan aftur heim að Leyningi. Sigurður Leyningsbóndi, fylgdi honum síðan áleiðis í bæinn og benti honum á hús Jóns Jóhannessonar.
… Jón Pálmi var orðin nær holdvotur, því talsvert hafði ringt um nóttina, farangur hans var ekki mikill, einungis ein lítil handtaska. Við fengum okkur kaffi í flýti og rérum síðan um borð. Þá var fólk að koma á fætur og nokkrir menn sáu okkur og ég hirti ekkert um það, því ég vissi að fáir á Siglufirði þekktu Jón Pálma. Fór ég með hr. Hanssen niður í klefa skipstjóra, sem tók við honum og sagði honum að dvelja þar.
Babb í bátinn og breytt ferða áætlun!
…En nú kom babb í bátinn, skipið átti að láta úr höfn og hvergi að koma við á leið sinni til Bergen. Nú var þessu breytt og skipið átti að sigla inn til Akureyrar. Ég man nú ekki hver ástæðan var til þessa, en minnir þó að það væri til þess að fá áritun Breska ræðismannsins þar á skipsskjölum. Þetta orsakaði einnig það að burtferð skipsins frestaðist til kvölds og að með því fór heill hópur farþega héðan, til Akureyrar…
... og meðal þeirra var sjálfur lögreglustjórinn!
Mér varð alls ekki rótt– ég sagði Jóni Pálma allt um ástandið og horfurnar og spurði hann um hvort að hann kysi heldur að leggja sig í þá áhættu að halda áfram með skipinu eins og nú horfði eða fara með mér aftur í land og bíða betra tækifæris. Við vorum báðir nokkuð vaklandi og kölluðum til okkar Frölund skipstjóra…
… hann verður sennilega öruggur inn í klefa mínum, þangað færi enginn nema með leyfi mínu.
Það var því fastráðið að Jón Pálmi héldi áfram. Ég var um borð lengi fram eftir deginum og vakti vera mín þar engan grun, því allir töldu að ég væri þar sem umboðsmaður Roalds.
Þá kom upp atvik sem gerði mig órólegan, Jón Pálmi þurfti að bregða sér á vanhúsið, en í ganginum rekst hann á gamlan skólabróður sinn, sem er farþegi með skipinu til Akureyrar. Jóni Pálma tekst að fá vin sinn að sverja við sig þagnarheit.
Kveðjustund á Siglufirði haustið 1915
…Síðari hluta dagsins kvaddi ég svo Jón Pálma. Við aftöluðum það, að hann skildi skrifa mér strax og hann væri búinn að fá sér varanlegan samastað í Noregi, því þar ætlaði hann að dveljast um veturinn. Hann átti einnig að senda mér öll þau bréf sem hann skrifaði til ættingja og vina á Íslandi og að ég koma þeim til skila. Því engan gat grunað þótt ég fengi mörg og stór bréf frá Noregi, því ég skrifaðist á við marga menn þar.
Þá varð það að síðustu bundist fastmælum að ég leitaði Jón Pálma uppi, seinna í haust eða vetur, um það var fyrir fram afráðið að ég yrði þar á síldveiðum á bátnum Von frá Álasundi.
Förlund skipstjóri var svo hugulsamur að senda mér skeyti frá Akureyri: “Erum á förum, allt í lagi.” Þá vissi ég að ekkert hafði út af borið og að skipið átti hvergi að hafa viðkomu fyrr en í Bergen.
Ég varð rólegur í huga, Jón Pálmi var kominn út fyrir Íslenska landhelgi og armur hinna Íslensku laga náði honum ekki lengur.
Bréfaskriftir og góðar fréttir frá Norge!
Skömmu eftir brottför Jóns Pálma, fékk ég boð með einum kunningja minna, frá einum af vinum Jóns á Sauðárkróki (J.K.L.) og spurði hann um hvað liði því er ég geymdi? Ég vissi ekki að þessi maður hefði verið viðriðinn flótta Jóns Pálma og fannst mér hann sýna með þessu vítaverða óvarkærni. Ég sendi honum samt línu, því ég óttaðist að hann gerði fleiri glappaskot sem gætu orðið hættuleg. Bað ég hann að vera rólegan, því sennilega fengi ég fréttir af “bögglinum” bráðlega.
Í október fékk ég svo þykkt bréf frá Jóni Pálma, sent frá Bergen og stóð A. Hanssen aftan á því. Innan í því voru mörg bréf til ættingja og vina hans. Þ.á.m. til (J.K.L) Ég setti þau öll í umslög og lét í póst. Bréf Jóns Pálma til mín var langt og skemmtilegt og sagði hann mér þar ferðasöguna. Ég hef því miður glatað því.
Sjóferðin hafði gengið vel og Frölund reynst honum vel, sem og Kristoffer Johannesson sem hjálpaði Jóni Pálma að finna gistingu og bauðst hann einnig að vera honum hjálplegur seinna ef Jón Pálmi fengi enga vinnu í Bergen.
Vinna á ljósmyndastofu í Bergen
Jón hafði strax fengið atvinnu á ljósmyndastofu í Strandgötu í Bergen, mig minnir nr. 21 og hafði það atvikast þannig að hann rakst á auglýsingu í blaði. Var auglýst eftir „kópíista.“
Hann var sæmilega fær í norsku og fór þangað strax og gaf sig fram sem umsækjanda.
Eigandi myndastofunnar var ung stúlka og ógift, bóndadóttir innan úr Harðangri. Hún tók honum vel, en heyrði strax að hann væri ekki Norðmaður og sagði hann henni satt að hann væri Íslendingur. Hún spurði hann um meðmæli, en hann kvaðst engin hafa. Henni leist ekki vel á að taka hann útlending meðmælalausan, fram yfir landa sína, sem margir höfðu sótt um atvinnuna. „Látið þér prófa okkur alla.“ Sagði Jón Pálmi. Henni gast vel á þeirri uppástungu og bað hann að hitta sig daginn eftir.
Næsta dag var Jón og fimm aðrir umsækjendur látnir keppa undir eftirliti dómnefndar, sem skipuð var faglærðum ljósmyndurum og var dómnefndin sammála um það að Jón hefði skarað langt fram úr. Fékk hann stöðuna og gott kaup, með loforði um hækkun bráðlega ef hann dygði vel. Jón kvaðst hafa fengi húsnæði leigt handa sér nálægt vinnustaðnum og liði sér þarna ágætlega.
Heimsókn til Bergen veturinn 1915
Ég fór frá Siglufirði ásamt Jóni mági mínum áleiðis til Noregs síðla í nóvember. Sú ferð með Flóru gömlu varð ærið ævintýraleg, en það heyrir ekki til hér að segja frá því.
Það nægir að geta þess að breskt herskip tók Flóru skammt frá Færeyjum og fór með hana til Leirvíkur á Hjaltlandi og var okkur haldið þar í þrjá sólarhringa. Við félagar vorum þrjár vikur á þessu ferðalagi í frá Siglufirði til Kristjansund í Noregi, en til Bergen komum við 11 desember.
Ég var nægilega kunnugur í Bergen, til að ég treysti mér til að hafa uppá Jóni Pálma án leiðsögumanns. Við fundum strax myndastofuna og spurðum eftir Hr. Hanssen. Ungfrúnin kom sjálf til tals við okkur og spurði hvort við gætum ekki hitt hann frekar á morgun. En Jón Pálmi kom svo eftir fáar mínútur og tók okkur hið besta. Ungfrúin sem átti myndastofuna var mjög alúðleg við okkur, þegar hún vissi að við vorum vinir Jóns, sömuleiðis faðir hennar, sem var staddur hjá henni í heimsókn. Hann var ríkur bóndi inn í Harðangursfirði. Ég áttaði mig strax á því að ungfrúin var skotinn í Jóni Pálma og sagði honum það þegar við vorum komnir út og bar hann ekki á móti. Hún var ekki fríð, en góðleg stúlka og geðug og bauð af sér hinn besta þokka.
Jón Pálmi býður síðan mágunum heim til sín og húsfreyjan þar gefur þeim góðan kvöldverð og …sátum við þar í dýrlegum fagnaði…þar á eftir fara allir þrír í bifreið að strandferðar skipinu Sigurð og skiluðum af okkur farangrinum. Við fórum síðan á hótel krá og skemmtum okkur fram að brottför.
Þá kvöddum við mágur Jón Pálma við skipshliðina og sá ég hann aldrei aftur. Við ákváðumst að skrifast á um veturinn og gerðum það.
Stórbruninn í Bergen 16 desember 1915.
Fáum dögum eftir að ég skildi við Jón Pálma eða 16 desember 1915 varð hinn eftirminnilegi stórbruni í Bergen og var ég þá staddur norður í Kristjanssundi. Allur miðhluti bæjarins brann til ösku og tjónið nam mörgum milljónum. Eldurinn hafði komið upp í Strandgötunni og hafði það svæði allt og vítt umhverfis brunnið og fjöldi íbúa hennar var nú húsnæðislaust.
Ég skrifaði til Jón Pálma og setti á bréfið heimilisfang hans á Strandgötunni, þótt ég vissi að húsið var brunnið. Ég fékk svar eftir fáeina daga innan úr Harðangri. Gamli maðurinn, faðir húsmóður hans, hafði komið og sótt dóttur sína og boðið Jóni að fara með og dvelja þar yfir hátíðirnar. Jón Pálmi tók því góða boði með þökkum og var þar við ágæta líðan fram undir vor, en ekki dró til hjúskapar með honum og heimasætunni, sem þó mundi hafa verið vel þegið af hennar hendi og föður hennar.
Bréfaskriftir!
Við Jón Pálmi skrifuðumst á yfir veturinn, þar til ég fór heim til Íslands í maí… Bréfaskriftir strjálnuðu á milli okkar Jóns eftir að ég kom heim. Ég fékk línu frá honum endrum og eins. Ég held að hann hafi farið til Svíþjóðar sumarið 1916. Síðan vissi ég til að hann var kominn til Kaupmannahafnar og hitti þar Guðna bróður sinn og föður sinn sem dvaldi þar um tíma, en þetta mun hafa verið nokkrum árum síðar, en ég man ekki hvert árið.
Síðar komst svo Jón Pálmi til Ameríku og varð þar kunnur maður fyrir að tefla kappskák við skákmeistara Ameríku.
Ég fékk síðast bréf frá honum vorið 1925 og leið honum þá vel.
Ritað í febrúar, 1943.
J. Jóh.
Áratuga vinátta og fleiri bréf
ATH. Smellið á mynd og hún birtist ykkur stærri.
Það virðist vera nokkuð óljóst hvað ár Jón Pálmi flutti til Ameríku eða Kanada, en ljóst er að hann notast lengi vel við nafnið Arne Hanssen á Skandinavíu árum sínum. Eins og sjá má á myndum hér ofar, þá gleymir Jón Pálmi aldrei velvildarfólkinu sem hjálpaði honum að komast úr landi og byrja nýtt líf sem frjáls maður. Bréfaumslagið er póst stimplað 1954 í Jackson, Michigan USA og á bréfi til Sigurðar og Salbjargar í Leyningi frá 1949 kemur fram að Jón Pálmi rekur þar ljósmyndastofu “The Palmis” Sem sagt starfar þar og lifir undir sínu eigin nafni. Einnig er óljóst hvenær peninga fölsunar dómsmálið frá 1914, fyrnist samkvæmt íslenskum lögum.
Í upphafi bréfsins segist Jón Pálmi ekki vera alveg heill heilsu og afsakar sig varðandi seint svar við bréfi frá Sigurði í Leyningi:
Ég ætlaði að senda þér einhverja dálitla jólagjöf…. ég sendi með þessu bréfi, ávísun á 50 dollara, ávísun þessa er best fyrir þig að selja Guðna bróður mínum í Reykjavík. Hann mun gefa þér meira fyrir hana en þú getur fengið í bankanum, því hann kaupir verðbréf frá þessu landi og hann veit líka að ávísunin er eins góð og gull, en gull má maður ekki senda frá þessu landi. Guðni ætti að borga þér um 12 kr, fyrir hvern dollara og fyrir það ættir Þú að geta keypt í staupinu….
Sumu vilja menn gleyma og annað muna!
… Ég hafði alveg gleymt sjómönnunum á litla bátnum á Siglufirði. Ég hafði ásett mér að gleyma öllu og fyrir þær ástæður gleyma menn líka, því þeir sem þeir ættu að muna, það var þó einkennilegt hvernig allt rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég var á Íslandi síðastliðið sumar.
Allir voru svo hjartanlega góðir við mig, eins og ég væri tíndi sonurinn úr Helju heimtaður. Jafnvel af aðalmönnum stjórnarráðs Íslands, varð besti vinur minn um það skeið sem ég dvaldi í Reykjavík. Svo tók Jón Pálmason á Akri í Húnaþingi ákaflega vel á móti mér. Þar var margt manna og mikið um dýrðir. Jón er forseti sameinaðs þings…
… Það er ekki til neins fyrir mig að skrifa þér einhverjar fréttir héðan að vestan. Allt er svo ólíkt því sem þú þekkir heima að þú mundir varla gera þér grein fyrir því sem ég er að segja.
Mér líður vel, er giftur góðri stúlku, rek myndasmíðar og er þar að auki bóndi. Ég er að hugsa um að selja allt viðvíkjandi myndasmíðum og fara svo út á búgarðinn minn, lifa þar svo í kyrrð og gefa út ritverk mín.
Þetta er hér um bil allt sem ég get sagt þér.
Verið þið svo blessuð og ég óska ykkur innilega gleðilegs árs og er ykkar í einlægni.
Leyndarmálið í Leyningi – Fyrri hluti
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd o.fl.:
Mynd fengin að láni frá Héraðsskjalasafni Austur Húnavatnssýslu.
Endurunnin af pistlahöfundi.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og Héraðsskjalasafni Austur Húnavatnssýslu.
ATH. Endurvinnsla á myndgæðum:
Í eldri ljósmyndum er gerð með gervigreind af Steingrími Kristinssyni og pistlahöfundi
Vísað er í ýmsar heimildir í greininni og í tímarit.is.