Eitt af áhersluverkefnum SSNV árið 2016 var að kanna grundvöll að sumarskóla í listum og skapandi greinum fyrir börn og unglinga á Norðurlandi vestra.
Þörfin fyrir Listaskóla unga fólksins (LUF) á Norðurlandi vestra var metin með kynningum og könnunum í skólum í sveitarfélaginu. Þær voru framkvæmdar frá maí til september árið 2017 í sjö af níu skólum á Norðurlandi vestra (sex grunnskólum og einum framhaldsskóla). Kynningarnar voru sniðnar að nemendum á aldrinum 10-16 ára og var tilgangur þeirra að meta áhuga nemenda fyrir hverri og einni af fimm mögulegum greinum: sjónlistum, skapandi skrifum, tónlist, dansi og leiklist. Þrjár mismunandi kynningar fóru fram, ein fyrir nemendur, önnur fyrir foreldra og sú þriðja fyrir kennara, til þess að fá sem skýrasta mynd af áhuganum fyrir LUF. Niðurstöðurnar sýna að brýn þörf er á LUF á Norðurlandi vestra. Áhugi var fyrir öllum fimm greinunum og þá sérstaklega fyrir sjónlistum og leiklist. Til þess að hrinda LUF í framkvæmd er mælst til þess að byrja á tilraunaverkefni í tveimur grunnskólum á Norðurlandi vestra. Þessi tilraun myndi bjóða upp á styttri smiðjur í sjónlistum og leiklist með það að markmiði að láta reyna bæði á hagnýtar og kennslufræðilegar hliðar verkefnisins.
Skýrsluna í heild má finna hér.