Matvælastofnun varar við neyslu á tveimur pökkunardagsetningum af taðreyktum silungi frá Geitey vegna listeríu (Listeria monocytogenes). Við innra eftirlit fyrirtækisins greindist listería og hefur fyrirtækið innkallað vöruna, í samráði við Matvælastofnun. 

Innköllunin nær eingöngu til pakkninga með pökkunardagsetningu 06.09.21 og 07.09.21:

  • Vöruheiti: Taðreyktur silungur
  • Framleiðandi: Geitey ehf
  • Nettóþyngd: Breytileg
  • Pökkunardagsetning: 06.09.21 og 07.09.21
  • Geymsluskilyrði: Kælivara við 0-4°C
  • Dreifing: Verslanir Hagkaupa, Nettó verslanir, Krambúð Húsavík, Skagfirðingabúð, Hlíðarkaup, Lamb-Inn, Melabúðin, Fjarðarkaup og Kolaportið.

Listeria monocytogenes getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi. 

Í flestum heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á listeríumenguðum matvælum ekki sjúkdómi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi. Hópsýkingar af völdum listeríu eru mjög sjaldgæfar, oftast er um að ræða einstaklingssýkingar.

Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki og skila vörunni til fyrirtækisins eða í viðkomandi verslun. 

Ítarefni