LANGTÍMAHORFUR TIL 3. JÚLÍ

Eins og fram hefur komið eru nú að eiga sér stað breytingar í lofthringrásinni á stóru svæði beggja vegna N-Atlantshafsins segir á vefsíðu Bliku.is.  Ríkjandi háþrýstisvæði síðustu vikna norður af Bretlandseyjum og yfir S-Skandinavíu hefur endanlega gefið eftir og sama má segja um þráláta háloftahæð vestur af Spáni og Portúgal.

Lítum á þessar breytingar á  nokkrum spákortum:

1. Spákort á fimmtudag fyrir 9 km hæð (300 hPa) er nokkuð lýsandi.  Vestur í Ameríku þrýstir hlýtt loft úr suðri sér í átt til Hudsonflóa. Magnar við það upp norðvestanstæðan skotvindinn.  Við það er svölu lofti beint til suðausturs og yfir Grænlandshaf. Með fylgir drag í háloftunum suðvestur og suður af Íslandi.  Lægðir myndast og regnsvæði koma úr suðri og fara yfir landið.

Yfir meginlandi Evrópu hreiðrar um sig hæð nærri Ölpum eða S-Frakklandi. Hún ásamt Íslandslægðinni beinir mildu og röku lofti til norðurs fyrir austan land. Suðausturland og Austfirðir fá eitthvað af úrkomunni með þessu nýja „færibandi“  

2. Næstu þrjú kort eru öll framlengdri spá ECMWF frá því á mánudagskvöldið og gilda fyrir næstu viku, 26. júní til 3. júlí.

Fyrst má sjá að spáð er háloftlægð að jafnaði nánast yfir landinu. Almennt séð þykja það ekki góð tíðindi fyrir sumarveðráttuna. Svala loftið í suðvestri og vestri kemur því nær og yfir landið.

3. Kemur fram með köldu fráviki hitans, einkum um norðanvert landið. Frávikið nemur um 1 til 2 stigum. Höfum í huga að mitt í öllu tali um hlýjan sjó langt suður í hafi og við Bretlandseyjar að þá er sjórinn í kaldara lagi fyrir norðan og einum norðausturundan.  Líklegir dagar með N- og NA-átt þessa vikuna gætu því orðið nokkuð svalir norðan- og austanlands.

4. Úrkomufrávik benda einmitt til N-lægrar vindáttar. Eins við Skotland og V-Noreg.  Þau ásamt háloftafráviku eru skýr merki um gang lægða fyrir sunnan land með stefnu á Færeyjar eða svo. Góðu tíðindin væru þá þau að líkur eru á einhverjum sólardögum um mánaðarmótin  suðvestan- og vestanlands, gangi þessi spá eftir. 

Heimild/Blika.is
Forsíðumynd/pixabay