Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni um Liverpool á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, bæði hér heima og erlendis, þessa dagana. Þar virðist kapp lagt á að setja út á og tala niður bæði liðið og leikmenn þess. Jafnvel á stuðningsmannasíðum Liverpool er liðið tekið í gegn af eigin aðdáendum.
Og hvað veldur? Jú, Liverpool hefur tapað leikjum á þessu tímabili, en liðið er enn ríkjandi Englandsmeistari eftir frábært síðasta tímabil.
Slot undir smásjánni
Þegar þetta er skrifað situr Liverpool í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Á síðasta tímabili tók lítt þekktur hollenskur stjóri, Arne Slot, við liðinu eftir að Jürgen Klopp ákvað að stíga til hliðar. Það er ekki beint auðvelt verkefni að taka við af Klopp, en Slot gerði frábæra hluti, leiddi Liverpool til sigurs og tryggði félaginu 20. Englandsmeistaratitilinn á Anfield.
Nú virðist hins vegar, ef marka má umræðuna, Arne hafa „mist allt vit á knattspyrnu“. Jafnvel hefur sést slagorðið Slot Out á stuðningsmannasíðum liðsins. Hversu steikt er það?
Stór kaup – og enn stærra áfall
Fyrir tímabilið var debetkortið dregið fram og stórum bitum af leikmannamarkaðnum landað: Florian Wirtz, Hugo Ekitike, Miloš Kerkez og auðvitað Alexander Isak. Leikmenn á borð við Virgil van Dijk og Mohamed Salah skrifuðu undir nýja samninga. Allt virtist í blóma og bjartsýni í loftinu.
En Liverpool missti líka leikmenn. Trent Alexander-Arnold fór til Real Madrid og síðan kom stóri skellurinn – sá sem virðist of margir hunsa. Diogo Jota lést ásamt bróður sínum í hræðilegu bílslysi á leið sinni til Englands, þar sem undirbúningstímabil liðsins var að hefjast.
Leikmennirnir voru að hittast eftir sumarfrí, spenntir að byrja nýtt tímabil og fagna Jota, sem hafði gengið að eiga sína heittelskuðu Rute Cardoso aðeins tíu dögum fyrr. Síðan berast fréttirnar af slysinu. Maður getur varla ímyndað sér hvernig leikmönnum og starfsfólki liðsins hefur liðið.
Leikmenn félagsliða eyða gríðarlegum tíma saman, vinna náið og mynda djúp vinatengsl. Að jafna sig á svona missi gerist ekki á einni nóttu. Enn í dag eru allir minntir á Jota hvar sem þeir ganga um Anfield og æfingasvæðið.
Sorgin sem sjá má á vellinum
Samt er liðið hakkað niður í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Mo Salah hefur ekki verið hann sjálfur í byrjun tímabilsins, og nánast daglega birtast greinar um hversu „ömurlegur“ hann sé. Þetta er leikmaður sem hefur spilað 413 leiki fyrir Liverpool, skorað 248 mörk og átt 116 stoðsendingar.
Salah glímir augljóslega við mikla sorg og hefur átt erfitt uppdráttar. Í viðtali við BBC sagði hann: “It is going to be extremely difficult to accept the death of fellow Reds player Diogo Jota.”
Það er ljóst að allir leikmenn Liverpool eru að takast á við sama tilfinningalega áfall. Jota var einstaklega vel liðinn, frábær liðsfélagi og vinur.
Það er greinilega mikil áskorun fyrir leikmenn liðsins að stíga inn á leikvanga og hafa þeir sýnt ótrúlegt hugrekki í hvert sinn sem þeir gera það.
Eftir síðasta leik Liverpool sem tapaðist eru samfélagsmiðlar uppfullir af kommentum og gleði yfir því hvernig liðinu gengur þessa stundina og internetið hefur greinilega kikkað inn hjá mörgum sem hafa ekki sést þar lengi.
Það er eiginlega sárt að lesa sumt sem sett er inn, eins og að Van Dijk ætti að halda annan fund með leikmönnum og Liverpool ætli að enda í 20. sæti til að heiðra Jota. Það er bara verið að gantast með þetta.
Nýir menn og nýjar áskoranir
Nýir leikmenn hafa átt misjöfnu gengi að fagna.
Jeremie Frimpong, 24 ára hollenskur bakvörður, hefur verið að glíma við meiðsli og virðist brothættur.
Miloš Kerkez, aðeins 21 árs, hefur átt erfitt með að höndla pressuna sem fylgir því að spila fyrir Liverpool – en það gleymist oft hversu ungur hann er.
Florian Wirtz, þýskur landsliðsmaður, var einn heitasti leikmaðurinn á markaðnum í sumar og Liverpool borgaði rúmlega 100 milljónir punda fyrir hann. Eftir örfáar mínútur á vellinum var hann kallaður flopp. En hann er aðeins 22 ára, og enski boltinn er bæði hraðari og harðari en hann á að venjast. Undanfarna leiki hefur hann þó sýnt sín gæði.
Hugo Ekitike, 23 ára framherji, kom nánast hljóðlega til félagsins og það hefur líklega hjálpað honum að aðlagast vel – hann hefur farið sterkt af stað.
Og svo er það Alexander Isak. Hann þvingaði fram skiptin og var nánast dæmdur til að eiga erfitt uppdráttar strax í upphafi. Hann kom til Liverpool fyrir metfé, 125 milljónir punda.
Að vera manneskja fyrst – leikmaður svo
Það er því augljóst að liðið sem heild, leikmenn og starfsfólk, er að takast á við djúpa sorg og söknuð. Slíkt hefur áhrif á alla.
Það væri rétt að við, stuðningsmenn og fjölmiðlar, sýnum smá skynsemi og sanngirni í gagnrýni og umfjöllun um liðið. Þeir sem hafa sjálfir misst nána vini eða ættingja vita að sorg er ekki eitthvað sem hægt er að „skrúfa fyrir“ og halda áfram eins og ekkert hafi gerst. Þetta tekur tíma.
You’ll Never Walk Alone
Diogo Jota – Never Forgotten 20
Höfundur greinarinnar er Andri Hrannar, stuðningsmaður Liverpool.




