Greinarhöfundur var í heimsókn hjá barnabörnum í Örebro yfir jólahátíðina og við brugðum okkur niður í miðbæ til þess að sjá stórkostlega ljósasýningu sem var varpað á stóra sögufræga höll frá miðri 14 öld. (Örebro slott)
Þetta er um 10 mínútna sýning þar sem tölvustýrðum myndum sem eru aðlagaðar að formi hallarinnar er varpað á veggi og glugga og sögð er saga þar sem höllin bæði brennur og hrynur en þetta endar allt vel með mynd sem er eins og jólakort með ósk um gleðileg jól.
Ísold, 3 ára barnabarn mitt varð hrædd og leist ekkert á þennan hávaða sem fylgdi sýningunni með tónlist og syngjandi músum svo hún forðaði sér bak við húshorn, afi Nonni bauðst til að taka fullt af myndum fyrir hana og sýna henni þegar við kæmum heim.
Datt í hug að leyfa ykkur að sjá þetta líka úr því að ég varð að taka svona margar myndir, sú hugmynd skaust upp í kollinn á mér þegar ég stóð þarna í allri þessari ljósadýrð að það væri nú gaman að sjá svona sýningu varpað í heila snjóþakta fjallshlíð heima á Sigló í fallegri vetrarstillu.
Örebro er þekkt fyrir sín götulistaverk í öllum stærðum og gerðum og það er mikilvægt að borgarbúum líði vel í fallegu umhverfi og jólaskreytingarnar í ár voru virkilega fallegar.
Læt nokkrar ljósmyndir í viðbót fylgja þessum orðum eftir.
Lifið heil.
Kær kveðja.
Nonni Björgvins