Árið 1947 voru fyrst sett upp ljós í skálarbrúnina á Hvanneyraskál fyrir ofan Siglufjörð. Voru það starfsmenn SR sem settu upp olíukyndla með ártalinu þann 6. janúar 1947 og átti Guðmundur Einarsson hugmyndina.

Á árunum 1953-1958 voru olíukyndlarnir undir Gimbraklettum og var Siglfirðingurinn Ragnar Páll driffjöðrin í því.

Síðan þá hafa ártölin verið á núverandi stað og var skipt yfir í rafmagnsljós árið 1962.

Undanfarna áratugi hefur Skíðafélagið Skíðaborg, Siglufirði séð um uppsetningu ljósanna og að öðrum ólöstuðum hefur Andrés Stefánsson rafverktaki á Siglufirði verið í hópnum um 50 ár.

Þann 19. desember síðastliðinn settu vaskir menn upp ártalið í skálarbrúnina, er þessi bæjarprýði án efa ein af elstu skreytingum landsins og hefur aldrei fallið úr ár í 75 ára sögu ljósanna. Ragnar Ragnarsson tók þessar skemmtilegu myndir þegar uppsetningin stóð yfir.