Eftir óveðrið og rafmagnsleysið í desember hafa íbúar Svarfaðardals og sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar lagt á það mikla áherslu að RARIK ljúki sem fyrst lagningu jarðstrengja í Svarfaðardal til að auka afhendingaröryggi til íbúa. Nú hefur RARIK staðfest að framkvæmdir í Svarfaðardal verða með eftirfarandi hætti:

Sumarið 2020 verður lokið við lagningu jarðstrengs austan megin að Ytra-Hvarfi. Einnig hefur fengist viðbótar fjárveiting til að leggja streng frá Dalvík að kjúklingabúinu við Hringsholt.

Sumarið 2021 er á áætlun setja jarðstreng í Svarfaðardal að vestan frá Hringsholti að Hreiðarsstöðum og áfram að Hóli, byrjað er að hanna strengleiðina. Áætlun er alltaf áætlun sem getur breyst en að mati RARIK þarf mikið að gerast til að ekki verði af þessu.

Frekari útskýringar frá RARIK:

Eftir aðgerðir sumarsins (svart á  kortinu hér að neðan) verður jarðstrengur alveg austan megin, bæði að Ytra Hvarfi og að Hreiðarsstöðum. Þá verður loftlínukafli frá Hringsholti og að Hóli vestan megin.   Það verður svo hreint jarðstrengskerfi austan megin alveg að Hreiðarsstöðum en þar, og í Ytra-Hvarfi, eru fjarstýranlegir rofar.

Ef stefnir í óveður getur RARIK farið í rofa sem er í línunni við Garðshorn og skipt upp línukerfinu þannig að Svarfaðardalur vestan, að Garðshorni, verður rekið frá aðveitustöð, kerfið frá Garðshorni að Hreiðarsstöðum í gegnum strengkerfið vestan megin, þ.e. frá Hreiðarstöðum, og innri Svarfaðardalur einnig frá Hreiðarsstöðum.  Það er reyndar kafli þar sem ekki urðu miklar skemmdir í desemberveðrinu.   Bilun á hverjum kafla hefur því ekki eins mikil áhrif og á síðasta vetri og hægt er, á stuttum tíma, að einangrað bilun í línukerfinu og koma rafmagni á fleiri. 

Dreifikerfið í Svarfaðardal er rekið í tveimur hlutum. Svarfaðardalur vestur annars vegar og svo eystri kjálkinn og Skíðadalur hins vegar.  Það er almennt besti reksturinn upp á töp og bilanir – jarðstrengur getur jú bilað líka.  RARIK hefur síðan tengimöguleika í gegnum fjarstýranlegar rofastöðvar í Ytra-Hvarfi og Hreiðarsstöðum. Þessar stöðvar voru settar upp árið 2016, á sama tíma og tengistrengur á milli kerfanna var endurvakinn.

Komi slæm veðurspá er hægt að breyta keyrslu kerfisins þannig að loftlínan sem ekki næst að taka úr rekstri í sumar verði rekin í þremur hlutum:

Fyrsti hlutinn verði frá Hringsholti að rofa við Garðshorn.

Annar hlutinn verði rekinn í gegnum strengkerfið austan megin að Hreiðarstöðum og þaðan að Garðshorni.

Þriðji hlutinn verði rekinn á sama hátt frá Hreiðarsstöðum að strengkerfinu sem hefst við Hól/Höfða.

Heimild og mynd/Dalvíkurbyggð