Ekki hringja til baka !

… nema auðvitað ef þú vilt styrkja fátæka svindlara í útlöndum.

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að síminn hringir 1 – 2 hringingar, í það minnsta nógu stutt til að fæstir ná að svara.

Alþekkt er að erlendir svindlarar stunda þessa iðju í von um að fólk hringi til baka. Sum þessara númera eru þannig að það kostar mikið að hringja í þau til baka, og þannig vonast þessir svindlarar til að næla sér í pening.

Ef þú færð hringingu frá númeri í útlöndum sem þú kannast ekki við er upplagt að gúggla landsnúmerið, og fá þannig nokkra hugmynd um hvað er á seyði.

Rétt er að minna á að það kostar ekkert að svara símtali hvort sem það kemur frá útlöndum eður ei.

Fréttaritarar Trölla sem dvalið hafa erlendis mánuðum saman og eru með erlent símanúmer, hafa oft átt í erfiðleikum með að ná í fólk á Íslandi vegna þess að það þorir ekki að svara hringingum frá útlöndum, en eins og áður sagði kostar ekkert að svara símtali hvaðan sem það kemur.

Undantekning frá þessu er reyndar þegar eigandi símanúmers sem hringt er í er erlendis, þá þarf viðkomandi að greiða símtalsflutning frá heimalandinu til þess lands sem dvalið er í. Sá kostnaður reiknast eftir lengd símtalsins og þarf þess vegna ekki að vera mikill ef símtalið varir stutt.